Lækjargata

Fornleifarannsókn hófst í Lækjargötu 12 fyrr á þessu ári með könnunarskurðum. Í ljós kom að mannvistarleifar voru að finna víða bæði sunnan og norðan við bankahúsið. Í sumar var svæðið norðan við bankahúsið rannsakað í þaula en nú er komið að svæðinu að sunnanverðu. Hér verður hægt að fylgjast með framvindu rannsóknarinnar í máli og myndum.

Lækjargata - Sunnan við bankahús

Uppgraftardagbók.


 

21. september
Dagur 1

Í dag byrjuðum við að grafa á svæðinu sunnan við Íslandsbankahúsið. Gunnar Sverrisson er á gröfunni en Lísabet Guðmundsdóttir og Lilja Laufey Davíðsdóttir eru á gröfuvaktinni.
Við byrjuðum á suðausturhorni svæðisins þar sem Lækjargata 12a stóð. Komið var niður á steinsteyptan kjallara sem tilheyrði Lækjargötu 12a en ekki fannst grunnur húsanna. Á milli kjallarans og Íslandsbankahússins er torf með landnámslaginu í en það er verulega raskað vegna bankabyggingar, skólprörs og kjallara.
Lækjargata 12a og b voru reist árið 1902 og brunnu árið 1967 ásamt bankabyggingunni.

Dagur 1


22. september
Dagur 2


Við héldum áfram að opna svæðið en færðum okkur yfir á suðausturhluta svæðisins, nánar tiltekið þar sem Lækjargata 12b stóð. Í Húsinu bjó á Bjarni Jónsson Dómkirkjuprestur. Þar sem áður var inngangur í húsið fannst lykill úr koparblöndu. Ef til vill var lykillinn geymdur undir dyramottu og hann varðveist á sínum stað þrátt fyrir bruna, niðurrif og malbikun.

Sunnan við  kjallarann er blandað torf með LNL laginu í en ekki sést, enn sem komið er, hvort þarna leynist bygging eða ekki. Lilja fann svínatönn í torfinu.


 

23. september
Dagur 3

Við Lilja héldum áfram að hreinsa kjallarann og svæðið sunnan kjallarans. Ekki var grafið neitt með vélgröfunni í dag. Í gær kom í ljós kolageymsla undir Lækjargötu 12b. Austan við kjallarann, eru röskuð rusla- og sandlög frá 19. öldinni.

Dagur 3

 


 

24. september
Dagur 4

Gunnar gröfumaður hélt áfram að grafa upp úr kjallaranum og náðist hann allur fram í dag. Þar eru ýmis skúmaskot og kom í ýmislegt í ljós til að mynda támjór karlmannskór, kartöflupoki frá Grænmetisversluninni og Lolli popp popppoki. Kjallaragrunnurinn var ljósmyndaður og mældur upp með alstöðinni. Hrönn vinnur hörðum höndum við fleytingar á sýnum úr gólflögum skálans. Í dag fann hún tvíliða perlu, fagurblá á litinn. Í vetur verður unnið úr sýnunum, skordýr greind ásamt plöntuleifum. Greiningarnar ætti að geta sagt okkur ýmislegt um lifnaðarhætti íbúa skálans.

Dagur 4 Dagur 4 Perla


 

29. september
Dagur 7

Í dag var portið vestan við bankahúsið og gömlu brjóstsykursgerðarinnar opnað. Í ljós kom hluti af húsgrunni frá 19. öld. Umhverfis grunninn eru hreyfð ruslalög einnig frá 19. öldinni.

 


 

30. september
Dagur 8

Veðrið leikur ekki við okkur þessa dagana enda haustið mætt með tilheyrandi vætutíð. Svæðið er eitt moldarsvað sem gerir uppgröft erfiðan. Við höldum þó ótrauð áfram og erum við langt komin með að opna svæðið. Í dag kom fram nýr húsgrunnur, vestan við Lækjargötu 12a. Svæðið allt í kring er þó verulega raskað vegna framkvæmda á svæðinu í gegnum tíðina.

Dagur 8


 

2. október
Dagur 10

Suðaustur hluti svæðisins er að fá á sig nokkuð góða mynd, nánar tiltekið svæðið undir Lækjargötu 12b. Þar er að finna torf með landnámslaginu ásamt steinum sem enn hefur ekki fengist nein skýring á. Þegar sunnar dregur fjarar torfið út. Upp við gangstéttina, Lækjargötumegin eru stoðarholur með steinpakkningu sem minnir hvað helst á stoðir fyrir girðingastaura. Okkur finnst ólíklegt að stoðirnar hafi tilheyrt Lækjargötu 12b en mögulega tengjast þær útihúsum sem tilheyrðu Waagehúsinu á fyrrihluta 19. aldar.

Fyrir þá sem hafa áhuga á að skoða sögu reitsins þá mæli ég með að skoða húsakönnunarskýrslu sem Minjasafn Reykjavíkur lét gera árið 2005.

Sjá hér: http://www.minjastofnun.is/media/husakannanir/skyrsla_126.pdf

Dagur 10


 

5. október
Dagur 12

Í dag kom fram húsgrunnur úr tilhöggnu grjóti sem liggur í N-S og A-V. Að austanverðu hefur verið grafið í gegnum grunninn vegna skólplagnar. Að sunnanverðu hefur tilhöggna grjótið verið fjarlægt en ummerki eru enn eftir húsgrunninn. Hluti grunnsins tilheyrir Vonarstræti 2 en brunaleifar hússins komu einnig í ljós í dag. Brenndir stólpar og annað byggingarefni komu fram og angaði svæðið af 48 ára gamalli brunalykt. Vonarstræti 2 brann ásamt Lækjargötu 12a og b árið 1967. Undir Vonarstræti 2 glittir í eldri steinhleðslu sem fram kom í könnunarskurði sem tekinn var í lok apríl á þessu ári.

Dagur 12


 

 

Mynd af uppgreftri við Lækjargötu - norðanmeginn.