Fréttir

Yfirlýsing Starfsmannafélags Fornleifastofnunar Íslands

Starfsmenn Fornleifastofnunar Íslands lýsa yfir þungum áhyggjum af þeim hugmyndum sem uppi eru um sameiningu stjórnsýslustofnunarinnar Minjastofnunar Íslands og eins af höfuðsöfnum landsins, Þjóðminjasafns Íslands. Þá gagnrýnum við þau frumvarpsdrög sem lögð hafa verið fram í tengslum við þessar breytingar. Undirbúningur samrunans hefur verið hraður, ógegnsær og án raunverulegs samráðs við fagaðila og hagsmunahópa.

Þar með bætast starfsmenn Fornleifastofnunar í hóp þeirra fjölmörgu fagaðila sem ályktað hafa gegn þessum gjörningi s.s. Félags fornleifafræðinga, FÍSOS, Minjastofnunar Íslands og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

Það er von okkar að fallið verði frá þessum áformum og að uppbygging innan þessa mikilvæga og ört vaxandi málaflokks verði unnin í samvinnu og sátt við fagaðila.

Yfirlýsing starfsmannafélags FSÍ (PDF).

Eigulegar bækur á bókamarkaði Forlagsins

 

Í byrjun september munu bækurnar Upp á yfirborðið, Hofstaðir og Norse Greenland fást með góðum afslætti á bókamarkaði Forlagsins. Markaðurinn fer fram í Bókabúð Forlagsins að Fiskislóð 39. Lesa má nánar um bækurnar Upp á yfirborðið og Hofstaðir hér og upplýsingar um efni bókarinnar Norse Greenland má finna hér

Tímamót í útgáfu Archaeologia Islandica

Stórmerkum áfanga í sögu útgáfu um fornleifafræði á Íslandi var náð í sumar þegar rit Fornleifastofnunar Íslands, Archaeologia Islandica, kom út í tíunda skipti. Við þessi tímamót tekur Orri Vésteinsson við ritstjórn af dr. Gavin Lucas sem hefur ritstýrt ArchIs frá upphafi. Sem fyrr eru margar spennandi og áhugaverðar greinar í nýjasta hefti ArchIs og má lesa útdrætti úr þeim hér.

Gróska í bókaútgáfu um fornminjar

Nú er gósentíð í bókaútgáfu um fornminjar og fornleifarannsóknir en margar bækur hafa komið út á síðustu árum og eru væntanlegar. Nýjasta dæmið er bók Hjörleifs Stefánssonar, Af jörðu, glæsilegt rit um íslensk torfhús. Af eldri bókum má nefna bók Steinunnar Kristjánsdóttur um uppgröftinn á Skriðuklaustri, bók Guðrúnar Sveinbjarnardóttur um uppgröftinn í Reykholti, Mannvist eftir Birnu Lárusdóttur, bók um uppgröftinn á Hofstöðum í ritstjórn Gavins Lucas og greinasafnið Upp á yfirborðið sem Fornleifastofnun gaf út. Nú hyllir enn undir bækur um fornminjar og tengd efni en nýstofnaður Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna úthlutaði á dögunum styrkjum og á meðal styrkhafa eru fornleifafræðingarnir Adolf Friðriksson, Birna Lárusdóttir og Elín Ósk Hreiðarsdóttir. Lista yfir styrkhafa og heiti verkefna má finna á heimasíðu Rannís: http://www.rannis.is/media/181750/SSSF%20uthlutun%202013.pdf.

Ný grein um forngarða

Fyrr í þessum mánuði kom Árbók Þingeyinga út. Árbókin er sameiginlegt héraðsrit Norður- og Suður-Þingeyjarsýslu. Í bókinni er að vanda að finna margar fróðlegar og skemmtilegar greinar en að þessu sinni eiga tveir starfsmanna Fornleifastofnunar grein í ritinu. Greinina skrifa þau Elín Ósk Hreiðarsdóttir og Stefán Ólafsson og ber hún yfirskriftinaFornir garðar í Kelduhverfi. Greinin fjallar, eins og nafnið gefur til kynna, um rannsóknir á forngörðum í Kelduhverfi sem unnar voru sumarið 2011. Áður en vettvangsrannsókn hófst hafði lega garðlaganna verið kortlögð en á vettvangi voru teknir sex prufuskurði í jafnmörg garðlög á svæðinu. Niðurstöður vettvangsrannsókna voru að garðarnir eru líklega allt eins gamlir og systurgarðar í suðursýslunni og hafa ekki verið byggðir síðar en á 10.-13. öld.  Rannsóknir sýndu jafnframt að lega garðanna í Kelduhverfi er talsvert frábrugðin legu garðanna í suðursýslunni. Helsta einkenni garðanna í Kelduhverfi er margföld garðlög umhverfis rústaþyrpingar sem líklega eru býli eða sel en það er ólíkt einkennum garðanna í suðursýslunni sem eru línulegir og liggja gjarnan eftir endilöngum hlíðarrótum eða á heiðum.

Frekari upplýsingar um Árbók Þingeyinga 2011 er að finna á eftirfarandi vefslóð: http://www.husmus.is/index.php?option=com_content&view=article&id=282&Itemid=203&lang=is
 

Ráðstefna NABO á Akureyri

Dagana 12.-13. júlí næstkomandi fer fram fjölbreytt og spennandi ráðstefna NABO (North Atlantic Biocultural Organisation) á Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri. Fornleifastofnun Íslands kemur að mörgum af þeim rannsóknum sem kynntar verða á ráðstefnunni en frekari upplýsingar og dagskrá er að finna á heimasíðu NABO