Orðasafn í Fornleifafræði

Hér birtist netútgáfa 1.0 af Orðasafni í fornleifafræði.  Safnið er hugsað sem handhægur vettvangur til að fletta upp hugtökum í greininni og skilgreiningum á þeim, hvort sem þau varða uppgröft, mannvirki, gripi eða kennilega umræðu.  Enskar þýðingar á hugtökum eru birtar aftan við flestar skilgreiningar. 

Orðasafnið miðast fyrst og fremst við íslenska fornleifafræði.

 

Ritstjóri safnsins er Birna Lárusdóttir og í orðanefnd sitja Garðar Guðmundsson, Hildur Gestsdóttir, Mjöll Snæsdóttir og Orri Vésteinsson.  Orðasafnið verður í sífelldri þróun og endurskoðun um ókomna framtíð. Sérstaklega er óskað eftir athugasemdum, leiðréttingum, viðbótum og hugmyndum á birna@instarch.is.

 

 

Þeir sem vitna í safnið sem heimild þurfa að hafa í huga að skilgreiningar geta breyst án fyrirvara.  Því er æskilegt að vitna í vefsíðuna og útgáfunúmer safnsins, í þessu tilfelli:  Orðasafn í fornleifafræði 1.0.

aðalskráning  kv. 
[skilgr.] Eitt stig fornleifaskráningar, byggir á svæðisskráningu. Við aðalskráningu eru minjastaðir skoðaðir á vettvangi, staðsettir, flokkaðir og kortlagðir. Tóftir eru teiknaðar upp og ljósmyndaðar.

[enska]field survey

afl kk.

[skilgr.] Eldstæði eða eldur í smiðju . 
[dæmi] Að bregða e-u fyrir aflinn merkir að eldbera e-ð (til herslu). 
[enska] forge

agat kk.

[skilgr.] Steintegund, afbrigði kalsedóns.

[skýr.] Gjarnan sjást rendur í agati, sem liggja í hring líkt og í þverskurði trjástofna, oftast hvítar, brúnar, rauðleitar eða grænar. Perlur úr slípuðum agat eru algengar og hafa fundist við fornleifauppgrefti, t.d. í Skálholti. Íslendingar höfðu trú á kynjamætti agats, hann átti að fæla burt drauga og bægja frá áhrifum galdra og sótta. 

[enska] agate

agnúi  kk. 
[skilgr.] Agnhald á öngli, lítið hak sem kemur í veg fyrir að beita og fiskur renni af honum. 
[enska] barb

akur kk.

[skilgr.] Afmarkað svæði og oft afgirt, stungið upp eða plægt, þar sem kornplöntur eru ræktaðar, t.d. bygg og hafrar en einnig lín.

[skýr.] Ritaðar heimildir, fornleifarannsóknir og örnefni benda til að akuryrkja hafi verið stunduð á Íslandi fram á miðaldir.

[enska] arable field, agricultural field

alstöð kv.

[skilgr.] Landmælingatæki sem hnitsetur ákveðna punkta í þrívídd, þ.e. bæði á x og y ás í hnitakerfi en mælir einnig hæð (z-ás). 
[skýr.] Tækið er mikið notað í fornleifarannsóknum, bæði uppgröftum og yfirborðsmælingum á rústum.  Í uppgröftum er það notað til mælinga á lögum og fundarstöðum gripa.  Upplýsingarnar koma að miklu gagni við kortlagningu.

[enska] total station

altarissteinn  kk. 
[skilgr.] Steinn, oftast tilhöggvinn og slípaður, hafður á altari í kaþólskum sið. 
[skýr.] Altarissteinar eru taldir hafa verið algengir á Íslandi í kaþólskum sið, a.m.k. er þeirra oft getið í kirkjumáldögum frá miðöldum. Samkvæmt kaþólskum kirkjulögum mátti ekki syngja messu nema við steinaltari eða í það minnsta lausan, vígðan stein sem hafður væri á altarinu. Steinarnir gátu verið úr innfluttu grjóti, s.s. graníti og marmara en þó eru til dæmi um altarissteina úr íslenskum bergtegundum.

[enska] altar stone

alur kk. 
[skilgr.] Lítill stingur eða handbor 
[enska] awl

armbaugur

[skilgr.] Hringur, oftast úr málmi, til að bera um handlegg eða úlnlið. 
[skýr.] Armbaugar hafa fundist hér á landi, m.a. úr silfri og tálgukoli . 
[enska] armring

aska kv.

[skilgr.] Aska eru leifar sem eftir verða þegar fast efni brennur. Aska getur verið mismunandi á litinn eftir því hvaða efni hefur brunnið. Hún getur verið fínkornótt, gróf eða duftkennd. Sjá einnig viðaraska, móaska, taðaska, þangaska.

[skýr.] Aska er eitt af megineinkennum mannabústaða og finnst gjarnan í eldstæðum, öskuhaugum og gólflögum. Gosaska er venjulega nefnd gjóska.

[enska] ash

atgeir kk.

             [skilgr.Vopn, blanda af höggvopni og spjóti á löngu skafti. Atgeirar teljast til svonefndra stangvopna. 
[skýr.] Atgeirar eru nefndir í íslenskum fornsögum en engin slík vopn hafa fundist sem talist geta frá víkingaöld. Þvert á móti eru atgeirar, eins og við þekkjum þá, taldir upprunnir á 14. öld og því ekki ljóst hvers konar vopna er verið að vísa til í fornsögum. Á Íslandi hafa fundist fjórir atgeirar á víðavangi, einn í Vatnsskarði milli Húnavatnssýslu og Skagafjarðar og þrír í Grísatungufjöllum í S-Þingeyjarsýslu. Allir eru þeir taldir frá síðmiðöldum. 
[enska] halbeard

auðmulinn lo. 
[skilgr.] Auðmulinn er notað um jarðveg eða mannvistarlög sem molna auðveldlega milli fingra en smyrjast ekki út eins og leir eða fitublandin lög, t.d. gólflög. 
[skýr.] Flestar tegundir íslensks jarðvegs eru auðmuldar. 
[enska] friable

áfok hk.

[skilgr.] Áfok er hvert það jarðlag sem myndast hefur úr vindbornum jarðvegi.  [skýr.] Áfokslög eru algeng í fornleifauppgröftum.  Jarðvegur fýkur til vegna uppblásturs eða rofs. 
[enska] loess, windblown soil

álagablettur kk.

[skilgr.] Afmarkaður staður sem álög hvíla á, mjög oft í slægjulandi.

[skýr.] Mátti þá ekki slá blettinn en væri það gert hafði það slæmar afleiðingar í för með sér, jafnvel dauða. Oft eru álagablettir tengdir huldufólki.

           [enska] cursed area

ár kv. 
[skilgr.] Verkfæri, breitt og flatt í annan endann, notað til að róa bát. 
[skýr.] Efniviður í árar var kallaður erði. Yfirleitt munu árar hafa verið smíðaðar úr tiltækum við, oft rekavið, en einnig birki. Hvalbein þekktist þó einnig sem smíðaefni í árar. 
[enska] oar

Ásubergsstíll kk.

[skilgr.] Norrænn skreytistíll frá víkingaöld. Skrautið byggist upp á ýmiss konar dýrum og furðuskepnum, oft höfuðsmáum og með ólögulegan líkama. Oft togna útlimirnir í langa anga og vefjast dýrin þá hvert um annað og mynda mynsturheild eða net. 
[skýr.] Ásubergsstíll tekur nafn sitt af útskornum munum úr tré sem fundust í Ásubergshaugnum á Vestfold 1903. Ásubergsstíll er fyrsti eiginlegi víkingastíllinn á Norðurlöndum og talinn hafa átt blómaskeið sitt fyrir árið 850. Stíllinn er náskyldur Borróstíl og eru þeir saman oft nefndir eldri víkingastíll. Á Íslandi hafa einungis fundist tveir gripir í Ásubergsstíl, nælur frá Skógum í Flókadal, að líkindum úr kumli . Þær eru taldar frá fyrri hluta 9. aldar og eru nánar tiltekið af Berdalsgerð. 
[enska] Oseberg style

áttahorf hk.

[skilgr.Áttahorf er lýsing á legu mannvirkis, grips eða beinagrindar með tilvísan í áttir.

[skýr.]  Áttahorf er einn þeirra þátta sem skipta miklu máli í hvers kyns lýsingum í fornleifafræði.

            [enska] orientation

ávalur lo.

[skilgr.]  Ávalur er notað um fyrirbæri sem hefur rúnnaðar brúnir eða horn.

[skýr.]  Hugtakið er notað í lýsingum, bæði á gripum og ýmsum byggingarlegum einingum, t.d. stoðarholum og ræsum. 
[enska] rounded

áveita kv.

[skilgr.] Mannvirki sem ætlað er að stýra vatnsrennsli.

[skýr.] Áveitur geta samanstaðið af hlöðnum görðum, stíflum og skurðum. Þær voru oftast byggðar til að veita vatni á akra eða slægjuland en einnig var algengt að veita lækjum heim að bæjum til þvotta og neyslu. Fátt er vitað um áveitur á Íslandi til forna en þær urðu algengar á umbótaskeiði í landbúnaði á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. [enska] irrigation 

 

 

B

bagall kk.

[skilgr.] Biskupsstafur, kirkjusiðalegt hefðartákn biskups eða ábóta, notað við kirkjulegar athafnir. 
[skýr.] Baglar voru gjarnan ríkulega skreyttir. Tá-baglar nefnast baglar með T-laga handfangi. Aðeins einn slíkur hefur varðveist á Norðurlöndum svo vitað sé og fannst á Þingvöllum árið 1957. Hann ber einkenni Hringaríkisstíls og hefur því verið talinn frá 11. öld. 
[enska] crozier

báshella kv.

[sh.] besla, byrsla 
[skilgr.] Stór hella, reist upp á rönd og notuð sem skilrúm milli bása í fjósi. 
[enska] stall division slab

bátferja hk.

[skilgr.] Staður þar sem fólk var flutt yfir vatnsfall á báti að jafnaði.

[enska] boat ferry

bátkuml kv.

[sh.] bátgröf

[skilgr.] Kuml þar sem hinn látni hefur verið lagður í bát.

[skýr.] Nokkur bátkuml eru þekkt á Íslandi, þeirra þekktast vafalaust Kaldárhöfðakumlið. Viður varðveitist illa í íslenskri mold og hefur því aldrei fundist heillegur bátur, yfirleitt aðeins rónaglar og e.t.v. bátsfar í jarðveginum.

[enska] boat grave

beinprjónn kk.

 [skilgr.] Prjónn, gerður úr beini eða hugsanlega horni eða rostungstönn. 
[skýr.] Beinprjónar eru meðal algengra fornleifafunda frá víkingaöld. Þeir eru oft taldir hafa verið klæðaprjónar, þ.e. til að halda saman flík en auðvitað er ekki víst að þeir hafi allir þjónað sama tilgangi. Oft eru þeir um eða yfir 10 cm langir, gjarnan með útskornum haus. 
[enska] bone pin

beisli hk.

[skilgr.] Samheiti yfir búnað sem settur er á höfuð hests til að stjórna honum: höfuðleður, mél og taum. 
[dæmi] Talað er um að leggja beisli við hest eða beisla hest. 
[enska] bridle

beislisstangir kv. ft.

[sh.] stangamél, beisliskjálkar 
[skilgr.] Beislismél með stöngum, oftast úr kopar eða járni, sem ganga lóðrétt niður frá kjaftvikum hestsins þegar ekki er átak á þeim og er taumurinn festur í enda stanganna. Oft eru stangirnar ríkulega skreyttar. Beisli með beislisstöngum nefnast stangabeisli eða kjálkabeisli. 
[skýr.] Elstu jarðfundin mél á Íslandi eru öll hringamél en beislisstangir komu síðar til sögunnar. Öruggar heimildir eru til um stangamél á 16. og 17. öld. Þórður Tómasson hefur bent á að hornmélabeisli, sem eru verðmetin í Búalögum, hljóti að hafa verið stangabeisli, enda hefðu kjaftmél úr hornbeini tuggist upp og eyðst á skömmum tíma. 
[enska] shank bit

beit kv.

[skilgr.]  Hugtak sem haft er um hvers konar málmstykki sem fest eru á aðra hluti til skrauts eða nota, t.d. plötur og skildi sem fest eru á reiðtygi og skreytingar á drykkjarhornum.

[skýr.]  Upphaflega var orðið haft um málmbryddingar á hlutum úr öðrum efnum en Kristján Eldjárn færði merkinguna út.  ÁNorðurlandamálum er notað hugtakið „beslag“.

beitarhús hk.

[skilgr.] Fjárhús utan túns, oft fjarri bæ, sem miðar að því að nýta útbeit eða fjörubeit. [skýr.] Hugtakið er oft notað í ft. og var talað um „að hafa fé á beitarhúsum“.  Annað hugtak sem stundum er notað yfir beitarhús er „hagahús“.

[enska] sheephouse in the outfield

Berdalsgerð kv.

[sh.] Berdalsstíll 
[skilgr.] Sérstök gerð af kúptum nælum, afbrigði Ásubergsstíls. Helsta einkenni Berdalsgerðar er annars vegar hryggur sem liggur lóðrétt eftir kúpta fleti nælunnar og skiptir henni í tvennt og hins vegar nokkur pör af hnöppum eða upphleyptum kringlum sem samsvara augum, bógum og lærleggjum skepnu. 
[skýr.] Gerðin er vesturnorræn og var algeng í Noregi og Danmörku. Talið er að Berdalsgerð hafi verið notuð töluvert fram á síðari hluta 9. aldar. Á Íslandi hafa fundist tvær kúptar nælur af Berdalsgerð, í Skógum í Flókadal. 
[enska] Berdal style

besla kv.

            sjá báshella

bitill 

sjá mél

bjalla kv.

[skilgr.] Bjalla er gripur sem klingir í, oftast úr kopar eða koparblöndu, samsett úr tveimur meginhlutum sem eru klukka og kólfur sem hangir innan í henni. 
[skýr.] Bjöllur hafa fundist í þremur kumlum á Íslandi: Á Brú, í Vatnsdal og á Kornsá. Allar fundust þær með sörvistölum og því talið að þær hafi verið bornar í festi um hálsinn. Sumir hafa talið freistandi að telja bjöllur til helgigripa af írskum uppruna, ekki síst vegna frásagnar Íslendingabókar um að papar hafi skilið eftir sig bjöllur og bagla hér á landi.

[enska] bell

björgunaruppgröftur kk.

[skilgr.]  Uppgröftur á fornleifum sem eru í hættu, annaðhvort vegna framkvæmda (t.d. vegagerðar eða húsbygginga) eða náttúruafla (t.d. sjávarrofs).

[skýr.]  Björgunaruppgreftir eru mjög algengir í stórborgum erlendis og þeim fer fjölgandi hérlendis.  Stærsti íslenski björgunaruppgröfturinn fram að þessu er uppgröfturinn á Stóru-Borg undir Eyjafjöllum en þar ógnaði vatnsrof bæjarhól.

[enska] rescue excavation, development led excavation

blágrýti hk.

[skilgr.] Ein algengasta bergtegund á Íslandi, um 90% berggrunnsins, dökkgrá að lit. Blágrýti er dekkra en grágrýti vegna þess að það er dulkornótt, þ.e. kristallarnir sjást ekki með berum augum.

[skýr.] Blágrýti var algengt hleðslugrjót.

[enska] basalt

blástursgjall hk.

[skilgr.] Úrgangur sem til fellur þegar járn er unnið úr mýrarauða með rauðablæstri. [skýr.] Yfirborð blástursgjalls er dálítið gárað, oft nokkuð dökkt og gljáandi, ekki óáþekkt því, sem gerist um yfirborð hrauns, sem storknað hefur á hægu rennsli. Blástursgjallsstykki eru misjafnlega þykk, líkast til sjaldan meira en 6-10 cm, oftast dálítið holótt og líkjast því hraunsteini, en eru yfirleitt langtum þyngri í sér. Stundum má sjá í gjallinu leifar af viðarkolum. Blástursgjall inniheldur ýmis steinefni sem hafa lægra bræðslumark en járn. Yfirleitt finnst blástursgjall í meira magni en smíðagjall. [enska] smelting slag

blástursjárn hk.

[skilgr.] Frumafurð járnvinnslu með rauðablæstri, unnið úr mýrarauða.

[skýr.] Blástursjárn er fremur óhreint en væri það hitað og hamrað fékkst ágætis smíðajárn. Úrgangurinn nefndist blástursgjall.

[enska] smelting iron

blótkelda kv. (fornfræði)

[skilgr.] Kelda þar sem mönnum var fórnað í heiðni skv. fornum sögum. 
[skýr.] Minnst er á blótkeldu í Kjalnesinga sögu þar sem sagt er frá blótsiðum Þorgríms á Hofi: „En mönnum er þeir blótuðu skyldi steypa ofan í fen það er úti var hjá dyrunum. Það kölluðu þeir Blótkeldu.“ 
[enska] well of sacrifice 

blý hk.

[skilgr.] Bláhvítur, mjúkur málmur (Pb) með háan atómmassa.

[skýr.] Blý bráðnar við um 327°C. Blý var t.d. notað í met.

[enska] lead

bókarspennsli

[skilgr.] Spenna til að hafa utan um bók til að halda henni saman og krækja hana aftur. 
[skýr.] Bókarspennsli voru oft úr látúni og gjarnan skreytt. Oftast hafa þau verið fest við leður- eða skinnólar sem vafið var um bókina. 
[enska] book clasp

brennisteinn kk.

[skilgr.] Frumefni (S), gul skán eða útfelling sem myndast víða á háhitasvæðum. Brennisteinn bráðnar við 110°C.

[skýr.] Brennisteinn var útflutningsvara á Íslandi frá 14. öld og fram á þá 16. og jafnvel lengur. Hann var notaður í byssupúður. Miklar brennisteinsnámur voru t.d. í Námaskarði og í Krýsuvík.

[enska] sulphur

brennisteinsnáma kv.

[skilgr.]  Náma þar sem brennisteinn hefur verið tekinn. 

[skýr.]  Brennisteinsnámur voru á nokkrum háhitasvæðum á Íslandi, t.d. í Námaskarði og Krýsuvík.

[enska] sulphur mine

brons hk.

[skilgr.] Málmblanda, um 90 % af kopar á móti 10 % af tini.

[skýr.] Brons hefur lægra bræðslumark en hreinn kopar auk þess sem það er harðara. Brons var mikið notað í ýmsa gripi, aðallega skrautmuni.

[enska] bronze

brot hk.

[skilgr.]  Eitthvað sem ekki er heilt.

[skýr.]  Hugtakið er notað um bæði mannvirki (t.d. veggjarbrot) og gripi.  
[enska] fragment

brunakuml hk.

[sh.] brunagröf

[skilgr.] Kuml þar sem líkið hefur verið brennt fyrir greftrun.

[skýr.] Ekki hefur fundist staðfest brunakuml á Íslandi. 

[enska] cremation burial

brunnhús hk.

[skilgr.] Hús eða kofi sem hefur verið byggður annaðhvort yfir brunn eða læk. [enska] well house

brunnur kk.

[skilgr.] Manngerð hola eða gryfja sem grunn- eða lindarvatn safnast í, oft styrkt að innan með hleðslu.

[enska] well

brúnkol

sjá surtarbrandur

brýni  hk.

[skilgr.] Áhald, notað til að skerpa eggvopn og áhöld með egg. 
[skýr.] Íslensk brýni voru öldum saman gerð úr innfluttu flögubergi, enda talið að ekkert gott brýnslugrjót finnist í íslenskri náttúru.  Þó er vitað um a.m.k. einn stað þar sem sagt er að menn hafi sótt efni í brýni, Brýnisberg við Sauðanesvita. Ekki er þó vitað um gæði grjótsins.  Brýni finnast jafnt í kumlum sem ungum bæjarrústum. Kumlfundnum brýnum er skipt í tvo flokka, lítil brýni með gati og stór brýni. 
[enska] whetstone

búð kv.

[skilgr.] Samheiti yfir mannvirki með hlöðnum veggjum sem búið var í tímabundið á þing- og verslunarstöðum eða í veri (sjá verbúð).

[skýr.] Oft hafa búðir verið þaklausar en þó ekki alltaf.  Oftast hefur sennilega verið tjaldað yfir búðir meðan hafst var við í þeim.

[enska] booth

byggingarefni hk.

[skilgr.] Hvert það efni sem byggingar eru gerðar úr.

[skýr.] Á Íslandi var algengasta byggingarefnið torf og grjót en einnig viður, bæði rekaviður, birkiraftar og innflutt tré.

[enska] building material

byrgi hk.

[skilgr.] Samheiti fyrir ýmiss konar mannvirki sem ekki hafa þak eða stoðgrind, hlaðin úr torfi og/eða grjóti.

[skýr.] Byrgi getur t.d. verið herslubyrgi, fjárbyrgi eða smalabyrgi. Byrgi eru oft borghlaðin og stundum topphlaðin.

bæjarhóll kk.

[skilgr.] Hóll sem myndast úr upphlöðnum byggingarefnum, gólf- og sorplögum þar sem bær hefur staðið um lengri tíma, jafnvel aldaraðir.

[skýr.] Bæjarhólar eru meðal mikilvægustu minjastaða. Þeir geta orðið nokkurra metra þykkir.

[enska] farm mound

bæjarstæði hk.

[skilgr.] Staður þar sem bær stendur eða hefur staðið.

[skýr.] Á sumum bæjarstæðum myndast bæjarhólar.

[enska] farm site

bær kk.

[skilgr.] Samheiti yfir híbýli manna þar sem hafst var við að staðaldri og búskapur stundaður.

            [enska] farm

bökunarhella kv.

[skilgr.]  Hella úr flögubergi, notuð til að baka brauð á

[enska] baking stone

börkur kk.

[skilgr.]  Ysta lag á tré eða greinum

[skýr.]  Börkur (á Íslandi helst birkibörkur) er meðal þeirra lífrænu leifa sem oft hafa varðveist í gömlum mannvistarlögum. 
[enska] bark

deiliskráning kv. 
[skilgr.] Eitt stig fornleifaskráningar, nákvæm rannsókn og/eða uppmæling á minjastöðum á afmörkuðu svæði án fornleifauppgraftar. 
[skýr.] Deiliskráning er yfirleitt gerð þegar framkvæmdir standa til, þá í tengslum við deiliskipulag. 
[enska] intensive survey

dómhringur kk. (fornfræði) 
[skilgr.] Dómhringur var algengt hugtak hjá fornfræðingum á Íslandi á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. Það var oftast notað um hringlaga tóftir en einnig tóftir með annarri lögun. 
[skýr.] Dómhringar voru taldir menjar þingstaða, en sagt er frá dómhringum í nokkrum fornsögum. Rannsóknir hafa sýnt svo ekki verður um villst að margar tóftir sem kallaðar hafa verið dómhringar eru af annars konar mannvirkjum, t.d. kirkjugörðum og gerðum þar sem ræktun fór fram.

[enska]court circle

draugasteinn

sjá glerhallur

efnismenning kv.

[skilgr.] Áþreifanlegir hlutir sem fólk skilur eftir sig.

[skýr.] Efnismenning eitt helsta viðfangsefni fornleifafræðinnar, þ.e. að rannsaka efnismenningu til að draga ályktanir um samfélagið í heild.  Undir efnismenningu falla allir gripir og strangt til tekið mannvirki líka. 
[enska] material culture

Egyptólógía kv.

[sh.] egypsk fræði 
[skilgr.] Fræðigrein sem fjallar um Forn-Egyptaland, einkum menningarsögu, trúarbragðafræði og fornleifafræði. 
[enska] Egyptology

eind kv.

[skilgr.]  Eind er heiti yfir hvern þann byggingarlega þátt sem greina má í fornleifauppgrefti eða –skráningu.  Eind getur t.d. verið veggur, eldstæði, stoðarhola, renna, ræsi eða jafnvel tóft.

[skýr.]  Sérhver eind er næstum undantekningalaust samansett úr mörgum einingum (contexts). 
[enska] archaeological feature, structural feature

eining kv. 
[skilgr.] Minnsti greinanlegi þáttur sem er afmarkaður í fornleifauppgreftri. 
[skýr.] Eining getur t.d. verið afmarkað lag, stoðarhola eða fylling. Einingakerfið (single context planning) er hugsað þannig að hver eining samsvari einum atburði í myndunarsögu mannvirkis. Þegar grafið er með einingaraðferðinni (e. single context planning) fær hver einasta eining númer. 
[enska] context

einsleitur lo. 
[skilgr.] Sagt er að jarðvegur eða lag sé einsleitt þegar það er blæbrigðalaust og allsstaðar svipað að lit og áferð. 
[enska] uniform, homogenous

eldsneyti hk.

[skilgr.] Eldsneyti er hvert það efni sem notað er sem eldsmatur, brennt til upphitunar eða til að kynda eld, t.d. til smíða.

[skýr.] Algengt eldsneyti á Íslandi hefur verið mór, birki, rekaviður, viðarkol, tað og þang. 

[enska] fuel

eldtinna kv.

[skilgr.] Steintegund, líkast til mynduð úr leifum kísilsvampa sem lifðu á botni Krítarhafsins mikla.

[skýr.] Eldtinna var notuð til að slá eld og steinaldarmenn notuðu eldtinnu í verkfæri. Hún finnst ekki í íslenskri náttúru en hefur verið flutt til landsins og finnast oft brot úr eldtinnu í bæjarrústum.

            [enska] flint

endurbygging kv.

[skilgr.]  Það þegar mannvirki hefur verið lagfært eða byggt aftur frá grunni.

[skýr.]  Oft sjást merki um endurbyggingu í fornleifauppgrefti, t.d. hafa torfveggir oft verið hlaðnir upp 
[enska] rebuild

eyktamark hk.

[skilgr.] Eyktamark (einnig: eyktarmark) er fastur punktur í landslagi sem hefur verið notaður sem viðmið við sólargang til að vita hvað tímanum líður.

[skýr.] Eyktamark getur verið t.d. varða eða fjallstindur. Til forna var sólarhringnum skipt upp í eyktir: miðnætti, óttu, miðjan morgun, dagmál, hádegi, nón, miðaftan og náttmál.

[enska] timemarker


felt

[skilgr.] Vettvangur fornleifarannsóknar. 
[skýr.] Fornleifafræðingar segjast oft vera „í felti“ þegar þeir eru á vettvangi rannsóknar, hvort sem um er að ræða fornleifauppgröft eða –skráningu.

[enska] field

ferja kv.

[skilgr.] Ferja er annað hvort bátur, kláfur eða prammi sem notaður var til að ferja fólk og stundum skepnur yfir vatnsföll á sérstökum stað, ferjustað.

[skýr.] Talað er ýmist um bátferju, kláfferju eða dragferju. Hugtakið ferja merkir stundum ferjustað. Ferjudráttur var lögbundinn á Íslandi í margar aldir.

[enska] ferry

ferjustaður kk.

[skilgr.] Staður þar sem var ferja yfir vatnsfall, ýmist kláfferja eða bátferja.

[enska] ferry place

fiskasleggja kv.

[sh.] barða 
[skilgr.] Sleggja, notuð til að berja hertan fisk til að hann verði meyr. 
[skýr.] Oftast voru fiskasleggjur hnöttóttir steinar með gati, náttúrulegu eða klöppuðu, sem skafti var stungið í. Járnsleggjur hafa einnig þekkst en steinbarinn fiskur þótti betri. Yfirleitt var barið á sérstökum fiskasteinum . 
[enska] fish hammer

fiskasteinn kk.

[skilgr.]  Stór, oft jarðfastur steinn með flatt yfirborð sem notaður hefur verið til að berja harðfisk á.

[skýr.]  Yfirborð slíkra steina er oft slitið eftir mikla notkun.

[enska] fish stone

fiskreitur kk.

[skilgr.] Afmarkaður staður, stundum sléttaður eða hellulagður, þar sem saltfiskur var breiddur út til þurrkunar.

[enska] paved fish drying area

fjarkönnun kv.

[skilgr.] Samheiti yfir aðferðir sem notaðar eru til að varpa ljósi á fornleifar sem ekki eru augljósar á yfirborði. 

[skýr.] Undir þetta fellur m.a. könnun úr lofti eða loftmyndataka og athuganir með jarðsjá.

[enska] remote sensing

fjárborg kv.

[skilgr.] Fremur stórt, hringlaga byrgi ætlað til skjóls fyrir fé, einkum útigangsfé. [skýr.] Af heimildum að dæma hafa verið til tvenns konar fjárborgir: Annarsvegar borghlaðnar upp í topp og hinsvegar opnar að ofanverðu.

[enska] round sheep shelter

fjárbyrgi hk.

[skilgr.] Hellir eða mannvirki, annað en fjárhús eða beitarhús, sem haft var til að byrgja fé inni í, t.d. fjárborgir. 

[enska] sheep fold

fjárhús hk.

[skilgr.] Samheiti yfir hús sem notuð voru til að hýsa sauðfé, annað en hrúta: Ærhús, lambhús, sauðahús og beitarhús.

[enska] sheep house

fjárskýli hk.

[skilgr.] Hvers kyns skýli fyrir fé, annað en fjárhús.

[skýr.] Fjárskýli getur t.d. verið fjárhellir eða fjárborg.

[enska] sheep shelter

fjós hk.

[skilgr.] Hús sem nautgripir, aðallega mjólkurkýr, eru hýstir í.

[skýr.] Í fjósum frá miðöldum sem grafin hafa verið upp á Íslandi er oftast steinlagður flór eftir miðju hússins en beggja megin við hann básar, stundum aðskildir með báshellum.

            [enska] byre

flatarteikning kv.

 [skilgr.] Flatarteikning er yfirborðsuppdráttur í kvarða af uppgraftarsvæði eða skurði og þeim mannvirkjum eða einingum sem þar eru, séð ofan frá. 
[skýr.] Flatarteikningar geta verið af ýmsu tagi.  Þegar grafið er með einingaaðferðinni (single context planning) er oft gerð flatarteikning fyrir hverja einustu einingu.  Flatarteikning getur líka sýnt heildamynd af uppgraftarsvæði og öllum þeim eindum og lögum sem þar sjást á yfirborði þegar teikningin er gerð. 
[enska] plan

flekkótt lo. 
[sh.] dröfnótt, dílótt 
[skilgr.] Flekkóttur er sá jarðvegur sem er blandaður þannig að flekkir eru í honum. [skýr.] Flekkir eru minni en linsur í linsóttum jarðvegi. 
[enska] mottled

flokkur kk.

[skilgr.]  Flokkur er samansafn af einingum (context) sem fornleifafræðingur túlkar sem hluta af sömu heild, yfirleitt mannvirki eða sá hluti þess sem tilheyrir sama tímaskeiði (phase).

[skýr.]  Flokkar veita fornleifafræðingum yfirsýn yfir einingar, sem oft skipta hundruðum í einum uppgrefti, og auðvelda þar með úrvinnslu gagna og túlkun. 
[enska] group

flæðitafla kv.

            [sh.] Harris tafla

[skilgr.] Flæðitafla er myndræn framsetning á innbyrðis tengslum eininga (e. context) í fornleifauppgrefti.

[skýr.]  Í flæðitöflu fær hvert eininganúmer sinn reit og eru tengsl eininga sýnd með línum á milli reita.  Á ensku nefnist slík tafla „Harris Matrix“, nefnd eftir Dr. Edward C. Harris sem fyrstur notaði hana árið 1973. 
[enska] Harris matrix

flöguberg hk.

[sh.] skífer

[skilgr.] Ummyndað berg, blágrátt og fínkornótt, oftast með glitrandi ögnum í.

[skýr.] Flöguberg klofnar auðveldlega í þunnar hellur eða flísar. Það var flutt til Íslands allt frá upphafi byggðar, líklega frá Noregi, og aðallega notað í brýni. Einnig hafa fundist bökunarhellur og kvarnarsteinar úr flögubergi.

[enska] schist

fokmold kv.

 sjá áfok

fornfræðingur kk.

[skilgr.]  Maður sem leggur stund á fornfræði.

[skýr.] Helstu íslensku fornfræðingarnir voru Sigurður Guðmundsson málari, Sigurður Vigfúson og Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi.

[enska] antiquiarian

fornmeinafræði kv.

[skilgr.] Undirgrein beinafræði þar sem fengist er við meinafræðilegar breytingar á beinum til að varpa ljósi á heilsufarslegt ástand hins látna..

            [enska] palaeopathology

fornleif kv. 
[skilgr.] Fornleifar teljast hvers kyns leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða mannaverk eru á, 100 ára eða eldri.

            [enska] archaeology

fornleifafræði kv.

[skilgr.] Fornleifafræði er fræðigrein sem fæst við að rannsaka (forn) samfélög með skipulegri söfnun, skráningu, greiningu og túlkun á fornleifum og -gripum. 
[enska] archaeology

fornleifafræðingur kk.

[skilgr.] Maður sem fæst við að rannsaka fortíðina með aðferðum fornleifafræðinnar og hefur að markmiði að öðlast skilning á horfnum samfélögum. 
[enska] archaeologist

fornleifarannsókn kv.

[skilgr.] Rannsókn á fornleifum með aðferðum fornleifafræðinnar.   

[skýr.] Hugtakið er oftast notað um vettvangsrannsóknir, t.d. um fornleifauppgrefti og rannsóknir sem byggja á yfirborðsathugunum en síður um t.d. gripa- og beinarannsóknir.   
[enska] archaeological research

fornleifaskráning kv.

[skilgr.] Skipuleg skráning og kortlagning fornleifa á fyrirfram skilgreindu svæði. 
[skýr.] Fornleifaskráning skiptist í þrjú stig: Svæðisskráningu, aðalskráningu og deiliskráningu. Fornleifaskráning er grundvallarþáttur í landsháttafornleifafræði.

[enska] archaeological survey

fornleifauppgröftur kk.

[skilgr.] Kerfisbundinn uppgröftur og skráning á fornleifum með aðferðum fornleifafræði.

[enska] archaeological excavation

 fornplöntufræði kv.

            [skilgr.] Undirgrein fornleifafræði sem felur í sér rannsóknir á fornum plöntuleifum.

[skýr.] Með því að rannsaka fornar plöntuleifar má gera sér í hugarlund hvernig gróðurfari, ræktun og plöntunytjum hafi verið háttað á ákveðnum stöðum á ákveðnum tímaskeiðum.  Einnig getur fornplöntufræði varpað ljósi á verkmenningu t.d. notkun plógs eða arðs.

[enska] palaeoethnobotany, archaeobotany

fornvistfræði kv.

[skilgr.]Undirgrein fornleifafræði þar sem fengist er við rannsóknir á sambýli manns og náttúru til forna og þeim áhrifum sem maðurinn hefur haft á umhverfi sitt og öfugt.

            [enska] palaeoecology

forsaga kv. 
[skilgr.] Forsaga er tíminn fyrir tilkomu ritaðra heimilda á hverjum stað.  
[enska] prehistory

forsögulegt lag hk. 
[skilgr.] Jarðlag sem er frá því fyrir tíma ritaðra heimilda. 
[skýr.] Hugtakið er því breytilegt eftir löndum og jafnvel svæðum.  Á Íslandi er sjaldan talað um forsöguleg mannvistarlög þrátt fyrir að ritheimildir nái ekki aftur til landnáms.  Hins vegar er oft talað um forsöguleg gjóskulög, þ.e. þau gjóskulög sem féllu fyrir árið 870. 
[enska] prehistoric layer

forvarsla kv.

[skilgr.]  Fræðigrein sem miðar að því að gera við og forverja forngripi, þ.e. verja þá gegn skemmdum.

[skýr.]  Þegar gripir eru grafnir úr jörðu breytist umhverfi þeirra svo mjög að þeir eiga á hættu að skemmast á skömmum tíma ef ekki er gripið til aðgerða. 
[enska] conservation 

forvörður kk.

 [skilgr.]  Maður sem starfar við forvörslu.

 [enska] conservator

framburður kk.

[skilgr.]  Aur eða annar jarðvegur sem ár og önnur vatnsföll bera með sér.

[skýr.]  Framburður telst til náttúrulegra laga í fornleifauppgrefti líkt og áfok.

[enska] alluvium

frostverkun kv.

[skýr.] Þegar vatn frýs, þar með talinn raki í jarðvegi, þenst það út og veldur frostverkun, oft frostlyftingu.  Frostverkun er einn þeirra umhverfisþátta sem getur haft áhrif á jarðlög og þar með fornleifar. 

[enska] frost action

fundarnúmer hk. 
[skilgr.] Sérhver fundur, gripur eða jafnvel gripaflokkur sem grafinn er upp í uppgrefti fær sérstakt fundarnúmer. 
[skýr.] Fundarnúmerið er skráð niður og með því stutt lýsing á gripnum eða gripaflokknum og grein gerð fyrir fundarstað. 
[enska] finds number

fundarstaður kk.

[skilgr.] Staður í fornleifauppgrefti eða annarsstaðar þar sem tiltekinn gripur eða fundur fannst.

[skýr.]  Oft eru fundarstaðir í uppgrefti hnitsettir nákvæmlega með alstöð eða í hnitakerfi.

[enska] find spot, find location

fundur kk.

[skilgr.]  Hver sá hlutur sem finnst í fornleifauppgrefti eða annarsstaðar (lausafundur).

[skýr.]   Hugtakið nær bæði yfir gripi og aðrar leifar sem engin mannaverk eru á, t.d. bein. 
[enska] find 

fylling kv.

[skilgr.]  Jarðvegur sem fyllt hefur manngerðar gryfjur og holur af ýmsum toga, t.d. skyrsái og stoðarholur.

[skýr.]  Sumsstaðar hefur fylling myndast í tímans rás af t.d. hruni, foklögum og gjósku en annarsstaðar hafa gryfjur verið fylltar vísvitandi, oft með úrgangi og ösku.

[enska] fill  


gangabær kk.

[skilgr.] Bær sem samanstendur af mörgum sambyggðum herbergjum eða húsum og einkennist af göngum frá bæjardyrum, stuttum eða löngum, sem tengja saman hinar ýmsu einingar í honum.

[enska] passage farm

garðahöfuð hk.

[skilgr.] Ytri endi á garða í fjárhúsi.

[enska] trough end

garði kk.

[skilgr.] Hlaðinn bálkur eftir endilöngu gólfi í fjárhúsi, garðahúsi.

[skýr.] Fé var haft í króm beggja vegna við garðann. Ofan á garðanum voru garðastokkar og garðabönd úr tré. Þar var hey handa fénu látið. Talað var um „að gefa á garða“.  

[enska] central trough

garðlag hk.

[sh.] garður

[skilgr.] Hverskyns garðhleðsla úr torfi eða grjóti sem ekki er veggur í húsi eða tóft. [skýr.] Garðlög hafa verið hlaðin í ýmsum tilgangi en þó oftast til að hafa stjórn á skepnum eða til að marka eignarhald. Sjá einnig túngarður, vörslugarður, varnargarður, herslugarður, landamerkjagarður, göngugarður.

[enska] wall

garður kk.

sjá garðlag

geitakofi kk.

[skilgr.] Kofi sem geitur voru hýstar í.

[skýr.] Geitakofar eru algengastir á Norðausturlandi og virðast í flestum tilfellum hafa verið utan túns.

            [enska] goat shed

geislakol hk.

[skilgr.]Geislakol (C14) er geislavirk kolefnissamsæta.  Með greiningu á geislakoli er hægt að ákvarða raunaldur lífræns efnis.

[skýr.] Allar lífverur taka í sig C14 úr umhverfinu. Þegar lífvera deyr hættir upptaka efnisins en það sem eftir situr í vefjum minnkar jafnt og þétt. Helmingunartími geislakols er 5730 ár. Með því að mæla magn geislakols í lífrænu efni er hægt að reikna út hvenær lífvera dó. Aldursgreiningu með geislakoli er hægt að gera á t.d. beinum, viðarbútum, kolum, fræjum og skjeljum sjávardýra. Aðferðin var þróuð af Williard Libby og kom fyrst fram 1949.

[enska] radio carbon

gerði hk.

[skilgr.] Umgirt svæði, afmarkað með hlöðnu garðlagi.

[skýr.] Gerði er samheiti en til gerða flokkast t.d. margir kálgarðar og einföld réttarhólf.

[enska] enclosure

gjall hk.

[sh.] sindur, sori

[skilgr.] Gjall er samheiti yfir úrgang sem myndast við járngerð með rauðablæstri. Það finnst í storknuðum slettum þar sem járnvinnsla eða -smíðar hafa farið fram og er eftir því nefnt ýmist blástursgjall eða smíðagjall.

[skýr.] Gjall er gjarnan blöðrótt og frauðkennt að sjá en hart og oftast þungt í sér. Það inniheldur ýmis steinefni sem hafa lægra bræðslumark en járn.

[enska] slag

gjóska kv.

[skilgr.] Samheiti á þeim föstu efnum sem berast loftleiðina frá eldstöð í eldgosi. [skýr.] Orðið er nýyrði, smíðað af Vilmundi Jónssyni. Gjóska er mikilvægt tæki til aldursgreiningar í fornleifafræði. Talað er um gjósku eða gjóskulag. Einstök gjóskulög má tímasetja með hliðsjón af heimildum og jafnvel með geislakoli, ef lífrænar leifar, t.d. trjástofnar finnast í gjósku. Ef þekkt gjóskulag liggur óhreyft undir mannvirki er það örugglega reist eftir að lagið féll. Með gjóskulagagreiningu fæst því afstæður aldur mannvirkja, andstætt t.d. aldursgreiningu með geislakoli.

[enska] tephra

gjóskutímatal hk.

[skilgr.] Tímatal sem byggt er á aldursgreiningu gjóskulaga. Sjá einnig gjóskagjóskulagafræði.

            [enska] tephra chronology

glerhallur kk.

[sh.] draugasteinn

[skilgr.] Hálfgegnsætt afbrigði af kvarsi, fínkristallað, algeng holufylling á Íslandi. [skýr.] Glerhallur var skrautsteinn og t.d. notaður í perlur. Oft er hann rauðleitur vegna aðkomuefna. Sumir segja að heitið draugasteinn sé tilkomið þar sem neisti af steinunum sé tveimur slíkum slegið saman. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir hins vegar frá þeirri trú að sá sem beri á sér draugastein þurfi ekki að óttast mein af draugum.

[enska] calcedon

glitflöguberg hk.

           Sjá flöguberg

goðastúka kv. (fornfræði) 
[skilgr.] Goðastúka var talið afhýsi hofa, sá hluti þar sem goðin voru geymd. 
[skýr.] Í lýsingum fornfræðinga á meintum hoftóftum á 19. öld og í upphafi þeirrar 20. er algengt að talað sé um goðastúku annars vegar og framhof eða aðalhof hins vegar.

gólf  hk.

            sjá gólflag

gólflag hk. 
[skilgr.] Gólflag eða gólf er lag sem myndast af umgangi inni í skepnuhúsum eða mannabústöðum. 
[skýr.] Í mannabústöðum eru gólflög oft öskublandin, fitukennd og dökkleit, troðin og því þétt í sér. Stundum er talað um gólfskán. 
[enska] floor , floor layer

gólfskán kv. 
sjá gólflag

grafreitur kk.

[skilgr.] Afmarkaður staður eða reitur þar sem fólk hefur verið greftrað.

[skýr.] Yfirleitt er talað um grafreit ef hvorki er átt við kirkjugarð eða kumlateig. Heimagrafreitir eru á allmörgum bæjum á Íslandi, flestir frá lokum nítjándu aldar eða upphafi þeirrar tuttugustu.

[enska] cemetery

grafskeið kv.

sjá múrskeið

gryfja kv.

[skilgr.]  Hvers kyns niðurgröftur sem þó er stærri en hola.

[skýr.]  Til gryfja teljast t.d. sáför og kolagrafir.  Í gryfjum er oft fylling. 
[enska] pit

gröf kv.

[skilgr.] Niðurgröftur eða gryfja, hinsta hvíla manns eða jafnvel skepnu.

[skýr.] Kristnar grafir snúa frá vestri til austurs. 

            [enska] grave  

gæsarétt kv.

[skilgr.] Lítil rétt sem gæsir í sárum voru reknar í til slátrunar.

[enska] goose trap

<

Harris matrix

            sjá flæðitafla

haugur kk.

[skilgr.] Legstaður heiðins manns sem einkennist af haugi, þ.e. jarðvegi eða grjóti sem hefur verið hrúgað eða hlaðið ofan á gröfina.

[skýr.] Í fornritum er oft talað um legstaði fornmanna sem hauga. Eiginlegir haugar sjást þó sjaldan á Íslandi. Því lagði Kristján Eldjárn til að hlutlausara orð væri notað: Kuml.

[enska] burial mound

heimagrafreitur

sjá grafreitur

herminjar kv.

[skilgr.] Allar minjar sem eru til vitnis um hersetu og -umsvif. 

[skýr.]  Á Íslandi eru flestar ef ekki allar herminjar frá því um og eftir síðari heimsstyrjöld, t.d. skotbyrgi, braggar, varðturnar, radarstöðvar og kamrar.

[enska] military remains

herslubyrgi

[skilgr.] Grjóthlaðið byrgi sem fiskur var hengdur upp í til þurrkunar.

[skýr.] Herslubyrgi voru gjarnan höfð með gisnum hleðslum, á hæðum eða öðrum stöðum þar sem vindur gat leikið um þau.

[enska] fish drying shed

herslugarður kk.

[skilgr.] Grjóthlaðinn garður til að þurrka fisk á.

            [enska] fish drying fence

hestskónagli kk. 
[skilgr.] Sérstök tegund nagla, notuð til að festa skeifu við hestshóf.  [skýr.]  Hestskónaglar voru slegnir í löð og hafðir með stórum, flötum haus, gagnstætt við hóffjaðrir. 
[skýr.] Orðið var notað fram á 19. öld, mun lengur en hestskór.

hestskór  kk.

[skilgr.] Gamalt orð yfir skeifu. 
[skýr.] Hestskóa eða skúa er getið í Heiðarvíga sögu (um 1200) og í Morkinskinnu. Almennt er talið að hestskór eða skeifur hafi ekki tíðkast hér á landi á víkingaöld.

hestasteinn kk.

[skilgr.] Stór steinn til að tjóðra hesta við, yfirleitt heim við bæ.

[skýr.] Oftast hefur annaðhvort verið gert gat í gegnum steininn eða járnlykkja verið fest við hann svo þræða mætti taum í gegn.

[enska] horse stone, tethering stone

hesthús hk.

[skilgr.] Hús til að geyma hesta í.

[skýr.] Á Íslandi var algengt að hross gengju úti og yfirleitt aðeins reiðhestar hýstir. Niðurstöður f ornleifaskráningar sýna að hesthús voru oft í túnjöðrum eða sambyggð stærri útihúsum, t.d. fjárhúsum.

            [enska] stable 

heygarður kk.

[skilgr.] Staður þar sem hlaðið var um hey til geymslu, ýmist heim við bæ eða úti á engjum.

[skýr.] Á Suðurlandi höfðu menn oft heygarða í stað hlaðna allt fram til upphafs 20. aldar. Heygarðurinn var þá hluti af bæjarsamstæðunni, að húsabaki.

            [enska] hay rick

heystæði hk.

[skilgr.] Staður þar sem heysátur voru látnar standa.

[skýr.] Oft hefur verið hlaðið undir sátur og sést þá tóft. Heystæði hafa oft verið á víðavangi, helst á þurrum blettum í námunda við engjar. Þar voru hey gjarnan sett upp og geymd til vetrar.

            [enska] hay store

heytóft kv.

sjá tóft

hlaða kv.

[skilgr.] Hús sem hey er geymt í.

[enska] hay barn 

hjólbörur kv.

[skilgr.]  Handvagn til að flytja farm, t.d. jarðveg, með eitt hjól að framan og tvær höldur aftan úr.

[skýr.]   Hjólbörur eru ómissandi í flestum fornleifauppgröftum, notaðar til að flytja lausan jarðveg og grjót út fyrir uppgraftarsvæðið. 
[enska] wheelbarrow

hnit hk.

[skilgr.] Hnit eru tölur sem gefa upp nákvæma staðsetningu í fyrirfram gefnu hnitakerfi. 

[skýr.] Hnit eru mæld út frá tveimur ásum, láréttum og lóðréttum sem oftast eru kallaðir x og y.  Í þrívíðu hnitakerfi bætist við þriðji ásinn, z, sem táknar hæð. [enska] grid point, coordinate.

hnitakerfi hk.

[skilgr.] Kerfi lóðréttra og láréttra ása sem mynda rúðunet og notað er til að staðsetja ákveðna punkta. 

[skýr.] Lengdar- og breiddargráður eru dæmi um hnitakerfi. Með hnitakerfi er uppgraftarsvæði oft skipt upp í einingar sem síðan eru notaðar til mælinga, bæði við gerð flatarteikninga og eins til að staðsetja fundi.

[enska] grid, coordinate system

hola kv.

[skilgr.]  Hvers kyns niðurgröftur sem er minni en gryfja.

[skýr.]  Hola getur t.d. verið stoðarhola.  Þá finnast oft holur kringum eldstæði sem taldar eru eftir steikarteina eða umbúnað til að hengja upp potta.  Í holum er oft fylling.

[enska] hole

hornbein hk.

[skilgr.] Horn sem vex út úr höfði dádýra, en til dádýrsættar teljast t.d. elgir og hreindýr.

[skýr.] Hornbein var dýrmætt hráefni á víkingaöld og notað í margs konar gripi, t.d. taflmenn og kamba.

[enska] antler

hrafntinna kv.  

[skilgr.] Storknað og glerkennt gosberg sem myndast við snögga kælingu líparítkviku, t.d. á yfirborði hrauna. Oftast er hrafntinna biksvört.

[skýr.] Hrafntinna var talin geta valdið ósamlyndi hjóna. Ennfremur var hún talin hafa níu góðar náttúrur og níu vondar.

[enska] obsidian

hráefni hk.

[skilgr.] Hráefni er efni sem eitthvað annað er unnið úr, gripir, fatnaður eða matvæli. [skýr.] Hráefni getur t.d. verið óunnið hvalbein, kléberg eða mýrarauði. Ef hráefni finnst í töluverðu magni við uppgröft getur það verið vísbending um framleiðslu. [enska] raw material

hringamél hk. 
[skilgr.] Hringamél eru mél sem hafa hringi við báða enda bitilsins, við munnvik hestsins.  Í hringina festist síðan annars vegar höfuðleður beislisins, en það fer aftur fyrir eyru hestsins, og hins vegar taumur sem reiðmaðurinn notar til að stjórna hestinum. 
[skýr.] Hringamél eru eina tegund méla sem fundist hafa í íslenskum kumlum. Síðar, þegar kemur fram á miðaldir, verða stangamél næstum einráð.

hringnæla kv.

 [skilgr.] Hringnæla er sérstök tegund nælu sem algeng var á víkingaöld. Hringnælur eru samsettar úr hring og þorni og hefur þorninum (kk.) verið stungið gegnum klæði, líkt og tíðkast með nælur. Þar sem hlutarnir tveir mætast er liður. Hringurinn ATH tekur sjaldnast alveg saman, heldur er opinn á einum stað og endarnir venjulega skreyttir. 
[skýr.] Hringnælur hafa fundist í tveimur kumlum hér á landi og einnig eru til lausfundnar hringnælur. Hringnælur hafa sérstöðu meðal skartgripa víkingaaldar, enda finnast þær oftast í kumlum karla. 
[enska] penannular brooch

hringprjónn kk.

 [skilgr.] Hringprjónn er skartgripur sem var algengur á víkingaöld. Hringprjónar eru mismunandi langir, yfirleitt úr bronsi. Þeir hafa haus á efri enda, gat er gegnum hann og hringur þar í. Neðri endinn er oddmjór. 
[skýr.] Hringprjónar hafa líklega verið notaðir til að taka saman klæði, t.d. skikkju að framanverðu. 
[enska] ringed pin

hrossgröf kv.

[skilgr.] Gröf þar sem hross hefur verið grafið.

[skýr.] Með hugtakinu er stundum átt við hrosskuml. Þó eru til hrossgrafir úr kristni, oft frá 19. og 20. öld, þar sem eftirlætisreiðhross hafa verið grafin, jafnvel með reiðtygjum og í einstaka tilfelli nálægt eigendum sínum.

[enska] horse grave

hrosskuml hk.

[skilgr.] Gröf hests sem heygður hefur verið með manni í heiðnum sið.

[skýr.] Oftast hafa hestar verið heygðir í gröf hins látna en þó hafa fundist sérstök hrosskuml skammt frá mannskumlum. Íslenskir kumlhestar hafa líklega oftast verið skornir á háls en þó er dæmi um að hross hafi verið lostið þungu höggi á ennið. [enska] pagan horse grave

hrun hk.

[skilgr.] Hrun er sá hluti mannvirkis sem hrunið hefur úr upprunalegum stað, t.d. vegg eða þaki.

[skýr.]Hrun getur verið hvort sem er torfhrun eða grjóthrun. 
[enska] collapse 

hrútakofikv.

[skilgr.] Kofi sem hrútar voru geymdir í, aðskildir frá öðru fé.

[enska]ram shed

hundakofi kk.

[skilgr.] Hundakofi er byrgi eða hellir sem hundar voru hýstir inni í.

[skýr.] Hundakofar geta verið hlaðin byrgi, t.d. við sæluhús eða jafnvel hellar.

[enska] dog kennel

hvalbein hk.

[skilgr.] Bein úr hval.

[skýr.] Hvalbein var dýrmætt hráefni, einkum skíði, tennur og hryggjarliðir og notað í ýmsa gripi. Einnig eru dæmi um að hvalskíði hafi verið notuð sem hluti af stoðgrind eða þaksperrum í byggingar.

[enska] whale bone  

hverfisteinn kk.

[skilgr.] Hverfisteinn er hringlaga brýnslusteinn sem er handsnúið lóðrétt, notaður til að brýna áhöld með egg.

[enska] grind stone

hæð kv.

[skilgr.] Hæðarpunktur, hæð mæld á ákveðnum stað.

[skýr.] Hæðir eru oft teknar á lögum í fornleifauppgröftum til að auðveldara sé að endurgera uppgraftarsvæðið í þrívídd.  Hæðir er hægt að mæla með hæðarmæli eða alstöð.

[enska] level, height, Z-coordinate

hæðarmælir kk.

[skilgr.Tæki sem er notað til að mæla hæð á ákveðnum punkti.

[skýr.] Hæðarmælir er e.k. kíkir á þrífæti.  Sá sem mælir miðar kíkinum lárétt á fyrirfram ákveðinn punkt þar sem maður hefur tekið sér stöðu með þartilgerða mælistiku sem haldið er lóðrétt á punktinum.  Lesið er af stikunni gegnum kíkinn.  Hæðarmælar eru oft notaðir í fornleifauppgröftum til að mæla hæðir á lögum. Í seinni tíð hafa alstöðvar víða leyst þá af hólmi.

[enska] automatic level; dumpy level 

hænsnakofi kk.

[skilgr.] Kofi fyrir hænur.

 [enska] chicken coop


innlyksa kv.

 [skilgr.] Innlyksur eru t.d. steinar, viðarkolaleifar eða torfslitrur sem sjást í mannvistarlagi. Yfirleitt er miðað við að innlyksur séu nokkuð jafnt dreifðar um lagið nema annað sé tekið fram og því ekki hægt að skilgreina þær sem sérstakar einingar (e. context). 
[skýr.] Aðeins er talað um innlyksur í mannvistarlögum, ekki náttúrlegum.  Orðið er oftast notað í ft. 
[enska] inclusion

innrauð ljósmynd kv.

[skilgr.] Ljósmyndun þar sem innrauðir litir litrófsins eru myndaðir.

[skýr.] Innrauðar loftmyndir geta komið að miklu gagni í fornleifafræði þar sem þær draga sérstaklega fram gróðurbreytingar á jörðu niðri.  Roðinn í myndunum verður mestur þar sem gróska er mest.   

[enska] infrared photograph

innsiglisvax hk.

[skilgr.] Seigfljótandi efni sem storknar og var notað til að innsigla bréf.

[skýr.] Vaxið var hitað uns það varð fljótandi, þá látinn dropi þar sem innsiglað skyldi og innsigli, gjarnan með fangamarki sendanda, þrýst niður í vaxið sem síðan harðnaði. Á miðöldum var innsiglisvax oftast búið til úr trjákvoðu og býflugnavaxi. Innsiglisvax hefur sjaldan verið notað af almúga, fremur af biskupum, prestum og sýslumönnum.

[enska] sealing wax

in situ ao. 
[skilgr.] In situ er latína og merkir „á sínum upprunalega stað“. 
[skýr.] Sagt er að náttúruleg lög eða mannvistarlög séu „in situ“ ef þau hafa ekki færst úr stað eða verið raskað eftir að þau mynduðust.

            [enska] in situ

ísbroddur kk.

[skilgr.] Broddur úr járni, festur undir hestshóf  til að ná fótfestu á ísum.

[skýr.] Á ísbroddum voru tveir gaddar sem reknir voru upp gegnum hófinn og endar beygðir saman ofan á hófveggnum.  Talið er að ísbroddar hafi töluvert verið notaðir áður en skeifur (og skaflaskeifur) komu til sögunnar.  Einn ísbroddur hefur fundist í íslensku kumli, á Austarahóli í Fljótum en einnig fannst ísbroddur á bæjarrústum Sandmúla í S-Þingeyjarsýslu.

[enska] crampon

íshús hk.

[skilgr.] Hús eða skemma sem notað var sem kæligeymsla, einkum fyrir beitu.

[skýr.] Snjór og ís var borinn í íshús á vetrum, vatni gjarnan hellt yfir og látið frjósa í. Hélst þá kuldinn fram á sumar. Til einangrunar voru veggir íshúsa oft úr mjög þykku torfi en þau fóru ekki að tíðkast að ráði, að því er talið er, fyrr en skömmu fyrir aldamótin 1900.

[enska] ice house


jarðlag hk.

            sjá lag

jarðsjá kv.

[skilgr.] Jarðsjá er samheiti yfir öll þau mælitæki sem notuð eru á yfirborði til að kanna eðli jarðskorpunnar í jarðeðlisfræðilegum eða fornleifafræðilegum tilgangi.

[skýr.]  Jarðsjár geta verið af mörgum toga og mæla t.d. rafleiðni, hljóðhraða eða segulmögnun

            [enska] geophysical survey instrument

jarðvegsbor kk.

[skilgr.] Langur og mjór handbor sem notaður er til að taka jarðvegssýni.

[skýr.] Handafl er notað til að þvinga borinn ofan í jarðveginn og hann svo dreginn upp.  Þá hefur safnast í hann sívalur jarðvegskjarni sem gefur mynd af jarðlagaskipan á staðnum.  Jarðvegsbor er stundum notaður til að staðsetja minjar, t.d. öskuhauga.

[enska] auger

jarðvegsþykknun kv.

[skilgr.] Þykknun sem verður á jarðvegi vegna áfoks.

[enska] accumulation

jarðvegur kk.

[skilgr.]  Samheiti yfir öll þau jarðlög sem fengist er við í fornleifarannsóknum, hvort sem um er að ræða náttúruleg lög eða mannvistarlög. 
[enska] soil, earth

jaspis kk.

[skilgr.] Steind eða steintegund sem algeng er á Íslandi. Hún er til í ýmsum litafbrigðum en algengastir eru brún-, gul- eða rauðleitir tónar.

[skýr.] Jaspis er einn þeirra steina sem notaður var til að slá eld með eldstáli. Einnig var hann notaður sem skrautsteinn, t.d. í perlur.

[enska] jasper

járn hk.

[skilgr.] Frumefni (Fe), harður, gráleitur málmur sem finnst í málmgrýti og mýrarauða.

[skýr.] Á Íslandi var járn unnið úr mýrarauða með aðferð sem nefnist rauðablástur. Á 15. öld hófst innflutningur á svonefndu Ásmundarjárni og er talið að járnvinnsla hér á landi hafi lagst af fljótlega eftir það. Járn var mikilvægur nytjamálmur og smiðjur voru líklega á svo til hverjum bæ til að smíða og dengja ljái og skeifur.

[enska] iron

járnútfelling kv.

[skilgr.] Járnútfelling er náttúruleg umbreyting á jarðvegi þar sem járn fellur út og sest til.

[skýr.] Algengt er að rekast á járnútfellingu í fornleifauppgrefti. Útfellingin er rauðleit og hörð, líkt og skurn. Járnútfellingar verða oft til á lagamótum, þar sem vatn hefur náð að sitja eða við grunnvatnsyfirborð.

[enska] iron panning

kálgarður kk.

[skilgr.] Afgirt svæði eða gerði, stungið upp og borið á, þar sem matjurtir voru ræktaðar, t.d. kartöflur og rófur.

[skýr.] Kálgarðar urðu ekki reglulega algengir á Íslandi fyrr en á 19. öld. Frumkvöðull í íslenskri kálgarðarækt var Gísli Magnússon, kallaður Vísi-Gísli, sýslumaður í Rangárvallsýslu á 17. öld.

[enska] vegetable patch

kirkjugarður kk.

[skilgr.] Kristinn grafreitur, oftast girtur af, yfirleitt umhverfis bænhús eða kirkju. [enska] christian cemetery

klaustur

[skilgr.] Bygging sem hýsir samfélag nunna eða munka undir forystu abbadísar eða ábóta. 

[skýr.] Nokkur klaustur voru á Íslandi í kaþólskum sið, t.d. á Þingeyrum, Skriðuklaustri og Kirkjubæjarklaustri.

[enska] monastery, convent

kláfferja kv.

[sh.] kláfur, dráttur

[skilgr.] Ferja þar sem kláfur er notaður til að flytja fólk yfir stór vatnsföll.

[skýr.] Kaðlar eða vírar voru strengdir yfir vatnsfallið, yfirleitt þar sem skemmst vegalengd var milli bakka. Á þeim lék kláfurinn, trékassi, og var dreginn yfir.

kláfur, dráttur

sjá kláfferja

kléberg hk.

[skilgr.] Mjúkur og auðunninn nytjasteinn, samheiti fyrir fjölmörg mismunandi bergtegundaafbrigði.

[skýr.] Kléberg finnst ekki á Íslandi en var algeng innflutningsvara og finnst oft við fornleifauppgrefti, aðallega í lögum frá fyrstu öldum byggðar. Yfirleitt er talið að það hafi verið flutt inn frá Noregi eða Grænlandi, enda algengt á báðum stöðum. Kléberg var eftirsótt hráefni. Úr því voru gerð ílát, allt frá litlum bollum upp í stórar grýtur. Kléberg er eldfast og þolir mikinn hita, bergið er fitukennt og það má auðveldlega rispa með nögl. Kristján Eldjárn endurvakti orðið kléberg í íslenskri tungu en fram til þess hafði það verið kallað tálgusteinn líkt og fjölmargar aðrar mjúkar steintegundir. [enska] soapstone, steatite

kljásteinn  kk.

[sh.] kljágrjót, klé, kljár 
[skilgr.] Kljásteinn er steinn til að hengja neðan í uppistöðu í vef og halda henni strengdri. 
[skýr.] Kljásteinar geta verið með ýmsu móti, náttúrulegir steinar sem gat hefur verið gert í gegnum eða jafnvel náttúrulega gataðir steinar. Kljásteinar finnast stundum margir saman í uppgröftum og er það yfirleitt talin vísbending um að þar hafi staðið vefstaður.

[enska] loom weight

klömbruhnaus kk. 
[skilgr.] Klömbruhnaus er ákveðin tegund af torfhnaus sem stunginn er til að hlaða úr, oft húsveggi. Klömbruhnausar eru fleyglaga og lögunum raðað skáhallt á víxl þannig að þeir mynda e.k. fiskibeinamynstur. Milli laga var oft haft eitt lag af streng.

[skýr.]  Klömbruhnaus mun einnig hafa verið nefndur hnakkakökkur. 
[enska] slanted turf block

kol (náttúruleg kol, steinkol) hk.

[skilgr.] Fast eldsneyti úr ummynduðum plöntuleifum.  Í náttúrunni verða kol til úr jurtaleifum sem setjast til í mýrum og fenjum og ná ekki að rotna nema að takmörkuðu leyti sökum súrefnisfirrðar. Jurtaleifarnar lenda smám saman undir fargi jarðlaga og umbreytast á löngum tíma í kol. Kol innihalda mikið af kolefni og eru fyrirtaks eldsneyti.

[skýr.] Kol finnast ekki í jörðu á Íslandi. Mór er í raun fyrsta stig kolamyndunar með um 60% kolefnisinnihald og surtarbrandur kemst enn nær því að vera kol með um 70% kolefni. Á Íslandi var stunduð kolagerð, sumstaðar allt fram til upphafs 20. aldar. Kolin voru gerð úr kurluðu birki eða rekavið og nefndust viðarkol.

[enska] coal

kolagerð kv. 
[skilgr.] Sú athöfn að búa til viðarkol. 
[skýr.] Venjulega var talað um að gera til kola. Viður, oftast birki en stundum fjalldrapi eða rekaviður, var höggvinn og kurlaður, síðan settur í þar til gerða kolagröf. Þá var eldur borinn að en gröfin síðan byrgð með torfi. Þannig hélst glóð í kurlinu og var látin krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol.

            [enska] charcoal making

kolagröf kv.

[skilgr.] Gryfja sem gert er til kola í.

[skýr.] Kolagrafir finnast gjarnan nokkrar saman, oft upp af rekafjörum, á skógi vöxnum svæðum eða þar sem skógur hefur verið. Oft eru það sporöskjulaga eða hringlaga dældir með grónum krögum úr torfi í kring.

[enska] charcoal pit

kopar kk.

[sh.] eir [skilgr.] Rauðbrúnn málmur, frumefni (Cu).

[skýr.] Hann var mikið notaður í skrautmuni og nytjahluti allt frá landnámi. Auðvelt er að móta kopar og bræða hann til að steypa í mót, bræðslumarkið er 1083 C°. Kopar er mjúkur málmur og oft var honum blandað við önnur efni til að herða hann eða breyta eiginleikunum, t.d. tin og blý, sjá nánar koparblanda. Ef kopar kemst í snertingu við raka myndast græn húð á yfirborði hans, spanskgræna.

[enska] copper

koparblanda kv.

[skilgr.] Málmblanda sem hefur kopar að uppistöðu.

[skýr.] Orðið er samheiti fyrir allar koparblöndur, t.d. látún og brons. Tilgangurinn með blöndun var að breyta eiginleikum koparsins, t.d. herða hann, gera hann hentugri til smíða eða jafnvel breyta litnum.

[enska] copper alloy

krafsa kk.

[skilgr.]  Handverkfæri með löngu tréskafti sem notað er í fornleifauppgrefti til að skafa lausum jarðvegi saman í haug.

[skýr.]  Kröfsu er beitt á svipaðan hátt og hrífu.  Verkfærið er þó ekki með tindum heldur járni með breiðu, bogadregnu járnblaði.  Talið er að íslenskir fornleifafræðingar hafi kynnst verkfærinu í Noregi en það mun einnig notað  garðyrkju, vegavinnu og námavinnu.

[enska] krafser

kuml hk.

[skilgr.] Legstaður heiðins manns.

[skýr.] Sjá einnig tvíkuml, kumlateigur, hrosskuml.

[enska] pagan burial

kumlateigur kk.

[skilgr.] Svæði þar sem fleiri en eitt kuml er að finna. Sjá einnig kuml, tvíkuml, hrosskuml.

[skýr.] Nokkrir kumlateigar eru þekktir á Íslandi, þeirra þekktastur líklega á Dalvík. [enska] pagan cemetery

kúpt næla  kv. 
[skilgr.] Kúpt næla er ákveðin gerð af nælu frá víkingaöld. Kúptar nælur eru ílangar, oftast gerðar úr tveimur hlutum,  yfirskildi og undirskildi. Yfirskjöldurinn er kúptur og oftast ríkulega skreyttur 
[skýr.] Kúptar nælur eru algengustu skartgripir sem finnast í kumlum kvenna. Algengt er að þær finnist í pörum, enda hafa þær líklega verið bornar sín hvoru megin á brjósti eða öxlum. Oft voru sörvistölur á bandi milli nælnanna. 
[enska] oval brooch

kvars hk.

[skilgr.] Hörð steintegund, hvít eða gráleit með glergljáa, frumsteinn í öllu súru storkubergi og algeng holufylling.

[enska] quartz

kvíahnaus  kk. 
[skilgr.] Kvíahnaus er ákveðin tegund af torfhnaus sem stunginn var til að hlaða úr. Kvíahnausar eru ferkantaðar eða teningslaga torfur. 
[enska] turf block

kvíar kv.

[skilgr.] Aðhald eða rétt, torf- eða grjóthlaðin, sem ær voru mjaltaðar í.

[skýr.] Kvíar voru yfirleitt hafðar skammt utan túns eða í túnjaðri. Færikvíar komu til sögunnar á 18. og 19. öld, trégrindur sem voru færðar til í því augnamiði að áburður dreifðist úr skepnunum.

            [enska] milking pen

kyngervi

[skilgr.]  Félagslega mótaður munur milli karla og kvenna sem er til kominn vegna lærðrar hegðunar en á ekkert skylt við líffræðileg kyn. 

[skýr.]  Kyngervi getur verið breytilegt eftir tímabilum eða milli ólíkra menningarhópa svo dæmi séu nefnd.

[enska] gender

kynjafornleifafræði

[skilgr.] Nálgun í fornleifafræði þar sem áhersla er lögð á kyngervi og hvernig það kemur fram í fornleifafræðilegum rannsóknagögnum.

[skýr.]  Í kynjafornleifafræði eru einnig skoðuð tengsl kyngervis við aðra félagslega þætti eins og þjóðfélagsstöðu, aldur, þjóðerni og trú.

            [enska] gender archaeology

lag hk.

[sh.] jarðlag

[skilgr.] Samfellt lag af jarðvegi sem er aðgreinanlegt frá aðliggjandi lögum (ofan og neðan við), t.d. hvað varðar lit, áferð og þykkt.

[skýr.]  Lag getur verið hvort sem er náttúrulegt lag eða mannvistarlag.

[enska] layer, deposit  

lagamót hk.ft. 
[skilgr.] Lagamót er lína í jarðvegi sem markar skil milli laga. 
[enska] interface

lambhús hk.

[skilgr.] Fjárhús sem lömb voru geymd í.

[enska] lamb house

landamerki

[skilgr.] Hvers kyns kennimark sem notað er til að afmarka landareignir manna. [skýr.] Landamerki geta verið náttúruleg, t.d. ár og lækir og stundum gildir sjónlína milli sýnilegra kennileita, náttúrlegra eða manngerðra, t.d. steina, þúfna, hóla eða tjarna. Landamerki geta einnig verið manngerð að öllu leyti, t.d. garðlög og skurðir og í seinni tíð girðingar.

[enska] boundary marker

laug

[skilgr.] Lind með heitu vatni sem notuð hefur verið til baða eða þvotta. Sjá einnig þvottalaug

[skýr.] Oft hefur verið hlaðið um laugar til að stýra vatnsrennsli. Dæmi um íslenskar laugar eru Snorralaug í Reykholti og Vígðalaug í Laugardal.

[enska] naturally warm pool

lausafundur kk. 
[skilgr.] Lausafundur er fundur, oftast gripur, sem finnst á víðavangi, yfirleitt fyrir tilviljun og oft án samhengis við aðrar minjar. 
[enska] stray find

látún hk.

[sh.] messing

[skilgr.] Koparblanda sem inniheldur kopar og sink.

[skýr.] Látún er mjúkur málmur sem hentar vel til smíða, bræðslumark hans er um 1082°C. Látún var einkum notað í skreyti eða skrautmuni.

[enska] brass

leður hk.

[skilgr.] Skinn sem hefur verið unnið og sútað.

[skýr.] Leður var t.d. notað í reiðtygi, klæðnað sjómanna og skó. Fátt er vitað um skinnaiðnað hér á landi til forna en á 18. öld var algengt að leður væri fitusútað, þ.e. skinnið smurt með lýsi og síðan elt, teygt til og mýkt upp. Ekki er vitað til þess að raunveruleg sútun með kalki og berki, eins og tíðkaðist erlendis, hafi farið fram hér fyrr en mjög seint.

[enska] leather

linsótt lo.

[skilgr.] Linsóttur er sá jarðvegur sem er blandaður þannig að linsur eru í honum. [skýr.]  Linsur eru stærri en flekkir í flekkóttum jarðvegi.

[enska] lensed

lífrænn lo.

[skilgr.]  Allar leifar efnis sem áður hefur tilheyrt lífveru teljast lífrænar, t.d. bein, viður, ull og fræ.

[skýr.]  Flestar lífrænar leifar er hægt að nota til aldursgreiningar með geislakoli (C14).

[enska] organic

loftmynd kv.

[skilgr.]  Ljósmynd sem tekin er úr lofti.

[skýr.] Loftmyndataka fellur undir fjarkönnun í fornleifafræði.  Loftmyndir eru mikilvægt hjálpargagn í fornleifarannsóknum, enda gefa þær skýrari heildarmynd af minjum en hægt er að fá á jörðu niðri og sýna jafnvel minjar sem augað greinir ekki annars.  Þá eru þær oft grundvöllur að kortlagningu minjasvæða. Loftmyndir eru teknar úr gervihnöttum eða flugvélum/loftbelgjum/loftförum/flugdrekum.  Þær fyrrnefndu eru alltaf lóðréttar en þær síðarnefndu eru yfirleitt skámyndir sem nýta gjarnan samspil ljóss og skugga eða snjóalög við afhjúpun fornleifanna.

[enska] aerial photograph, AP

lýsislampi kk.

[skilgr.]  Einfaldur lampi, oftast úr kopar.  Kveikur, oftast úr fífu, lá ofan í lampanum og eldsneytið var lýsi.

[skýr.]  Einnig voru til lýsislampar með tvöfaldri skál.  Notkun lýsislampa lagðist almennt af um 1870-1880 þegar olíulampar komu til sögunnar.

[enska] oil lamp

mannvistarlag hk. 
[skilgr.] Mannvistarlag er hvers kyns lag sem til er orðið vegna umsvifa eða búsetu manna. 
[skýr.] Mannvistarlag getur t.d. verið gólflag, sorplag, veggur eða hrun. 
[enska] occupation layer, cultural layer

messing hk.

            sjá látún

mél hk.

[skilgr.] Mél eru áföst beisli, sá hluti sem fer upp í kjaft hestsins. Hestinum er stjórnað með taumi sem er festur á beislishringi eða beislisstangir á hliðum mélanna. 
[enska] snaffle bit

minjastaður kk. 
[skilgr.] Minjastaður er hver sá staður þar sem fornleifar er að finna.

[enska] archaeological site

mold kv.

sjá jarðvegur

móaska kv.

[skilgr.] Bleikbrún eða rauðleit aska, duftfín og mjúk, sem verður til þegar mór er brenndur.

[skýr.] Litur móöskunnar stafar af járninnihaldi mós.

[enska] peat ash

mógröf

[sh.] svarðargröf

[skilgr.] Gryfja eftir mótekju.

[skýr.] Mógrafir eru nær alltaf í mýrum.  Sjá einnig mór.

[enska] peat mine

mókol hk.

            sjá surtarbrandur

mór kk.

[sh.] svörður (einkum á Norðurlandi)

[skilgr.] Jarðlag sem oft finnst í mýrum, myndað úr plöntuleifum sem ekki ná að rotna nema að takmörkuðu leyti sökum súrefnisþurrðar.

[skýr.] Mór var notaður til eldsneytis allt fram á síðari hluta 19. aldar og jafnvel lengur, t.d. í heimsstyrjöldinni síðari. Víða sjást ummerki eftir mótekjuna, mógrafir. Móhnausar voru stungnir upp og þurrkaðir, síðan oft raðað upp í móhrauka. Íslenskur mór er einkum gerður úr stara- og mosaleifum og er í raun fyrsta stig kolamyndunar með um 60 % kolefni.

[enska] peat

múrskeið kv.

[sh.] grafskeið

[skilgr.] Þríhyrndur, sléttur stálspaði með stuttu skafti, eitt helsta verkfæri fornleifafræðinga við uppgröft. [skýr.] Með múrskeiðinni er hvert mannvistarlag eða jarðlag í fornleifauppgrefti skafið niður smám saman eftir að það hefur verið skráð og teiknað upp.[enska] trowel

mykja kv.

[skilgr.] Saur úr kúm.

[skýr.] Mykja var einhver besti áburður sem fékkst á tún. Sumir báru hana beint úr fjósum og á tún en á flestum bæjum, þar sem hún var á annað borð nýtt, var henni safnað í fjóshaug yfir veturinn en borin á tún að vori. Þá var hún fyrst mulin með klárum en í lok 19. aldar komu taðkvarnir til sögunnar. Stundum var gerður klíningur úr mykju og hafður til eldsneytis. Í Atla, leiðbeiningarriti fyrir bændur sem út kom á 19. öld, er mælt með að nota mykju til að þétta húsveggi.

[enska] cow dung

mylla kv.

[skilgr.] Mannvirki sem korn er malað í.

[skýr.] Í myllum eru myllusteinar, knúnir áfram ýmist af vindi eða vatni. Á Íslandi urðu myllur býsna algengar á 19. öld, yfirleitt vatnsmyllur. Stundum hafa þær verið reistar á lækjarbökkum en einnig þekkist að mjóir skurðir hafi verið grafnir úr lækjum og þannig veitt vatni á mylluhjólið. Þetta var gert til að auka fallhæð vatnsins og fá þannig aukið afl í mylluna.

[enska] mill

mýrarauði kk.

[sh.] rauði

[skilgr.] Járnríkir jarðvegskekkir sem finnast í mýrum. Járn var unnið úr mýrarauða á Íslandi fram á 15. öld með aðferð sem nefnist rauðablástur.

[skýr.] Mýrarauði myndast á þann hátt að jarðvegssýrur, einkum í mýravatni, leysa upp járnsambönd úr bergi. Þau flytjast síðan með vatni og setjast til sem mýrarauði þar sem vatnið afsýrist.

[enska] bog iron

mælikvarði kk.

1.  [skilgr.] Stöng eða stika sem notuð er til að mæla lengd með.

[skýr.]  Þegar ljósmyndir eru teknar af rústum, fornleifauppgrefti eða gripum er mælikvarði ávallt hafður við hlið viðfangsefnisins til að hægt sé að átta sig á stærðinni. 

 [enska] scale

2.  [skilgr.] hlutfall milli réttrar og breyttrar stærðar, t.d. á landakorti eða uppdrætti.  [skýr.] Þannig eru flatarteikningar t.d. oft í mælikvarðanum 1:20 en algeng landakort eru í mælikvarðanum 1:100000

   [enska] scale

naust hk.

[

[skilgr.] Tóft eða jafnvel hús sem skip og bátar voru geymd í milli róðra eða vertíða. [skýr.] Naust eru oft bátslaga, niðurgrafnar tóftir í sjávar- og vatnsbökkum sem skip eða bátar voru dregin í. Stundum eru naust kölluð hróf. 

[enska] docking shed

náma kv.

[skilgr.] Staður þar sem jarðefni hafa verið tekin.

[skýr.] Námur sem teljast til fornleifa á Íslandi eru brennisteinsnámur, mógrafir og torfristustaðir.

[enska] mine

nátthagi kk.

[skilgr.] Hlaðið gerði sem skepnur, oft kvíær, voru hafðar í, einkum á nóttunni. [skýr.] Megintilgangur með nátthögum var túnrækt, enda spratt vel undan áburði skepnanna. Oft voru þeir hafðir skammt utan túns og þá hugsaðir sem viðauki við það. Nátthagar urðu líklega ekki algengir fyrr en á 18.-19. öld með aukinni áherslu á áburð og túnrækt.

[enska] night field/night enclosure

náttúrulegt lag hk. 
[skilgr.] Náttúrulegt lag er jarðlag sem hefur myndast náttúrulega, t.d. gjóskulag eða áfokslag. 
[skýr.] Náttúruleg lög eru kölluð svo til aðgreiningar frá mannvistarlögum. 
[enska] natural, strata

náttúruminjar kv.ft.

[skilgr.] Náttúrulegt fyrirbæri sem annaðhvort hefur fengið hlutverk mannvirkis eða tengist menningarsögu á einn eða annan hátt.

[skýr.] Dæmi um náttúruminjar eru álagablettir, hellar sem hafa verið notaðir sem fjárskýli og aflraunasteinar.

[enska] natural feature

niðurgröftur kk.

[skilgr.] Hver sú eind í fornleifauppgrefti sem hefur verið grafin niður, t.d. gryfjur, holur og rennur.

[skýr.] Niðurgröftur getur t.d. verið skyrsáir og kolagryfjur en holur eru minni og geta t.d. verið stoðarholur eða aðrar litlar holur eftir tré og teina. 
[enska] cut

notkunarskeið hk.

[skilgr.]  Tímabil sem ákveðið mannvirki eða eind hefur verið í notkun. 

[skýr.] Sérhvert mannvirki eða eind getur átt sér mörg notkunarskeið.     
[enska] phase

næla kv.

[skilgr.] Næla er skartgripur sem festur er við klæði með prjóni. Nælur voru algengar á víkingaöld, sjá t.d. kúpt næla, hringnæla, þríblaðanæla, tungunæla.

[enska] pin

óhreyft lo.

[skilgr.]  Óhreyft er hvert það náttúrulega lag sem ekki hefur verið haggað við af mönnum. 
[enska] undisturbed

papi kk.

            [skilgr.] Írskur einsetumunkur  
[skýr.] Papar hafa oft verið ræddir í íslenskri sögu og fornleifafræði, enda greinir Íslendingabók frá veru þeirra hér fyrir hið eiginlega landnám.  Engar fornleifafræðilegar sannanir hafa staðfest þessa frásögn til þessa.  Til er nokkuð af papaörnefnum á Íslandi, t.d. Papey og Papahellir.

[enska] hermit

postulín hk.

[skilgr.] Hart, hvítt keramik sem búið er til með því að brenna hreinan leir.

[skýr.] Postulín er yfirleitt húðað með glerjungi.

prófíll kk.

            sjá snið

raf hk.

[skilgr.] Steingerð trjákvoða, oftast gul, rauð- eða brúnleit, hálfgagnsæ.

[skýr.] Raf var eftirsótt vara á víkingaöld. Það var notað í perlur og aðra skartgripi en einnig smáhluti eins og taflmenn. Raf finnst víða við strendur Eystrasalts.

[enska] amber

rask hk. 
[skilgr.]  Hvert það umrót sem valdið hefur skemmdum á fornleifum.

[enska] disturbance

rauðablástur kk. 
[skilgr.] Aðferð við að vinna járn úr mýrarauða. 
[skýr.] Ekki er vitað nákvæmlega hvernig rauðablástur fór fram.  Þó er ljóst að  mýrarauða var blandað saman við viðarkol í einhvers konar ofni og kveikt í. Þannig var rauðinn bræddur og þá féll til nothæft járn sem síðan var hamrað og smíðað úr. Talið er að rauðablástur hafi að mestu lagst af á Íslandi á 15. öld en þá var farið að flytja inn járn.

[enska] bloomery

rauðasmiðja kv.

[skilgr.] Mannvirki eða staður þar sem rauðablástur fór fram.

[skýr.] Járnvinnsla er talin hafa lagst af á Íslandi á 15. öld og er fátt vitað um rauðasmiðjurnar. Af ritheimildum og fornleifum að dæma hafa smiðjurnar oft verið fjarri bæ, nálægt hráefninu, þ.e. mýrarauða og jafnvel skógi til viðarkolagerðar.  Merki um rauðasmiðjur eru yfirleitt aðeins gjall á yfirborði, oftast þar sem jarðvegseyðing hefur herjað á.  Sjá einnig rauðablástur.

[enska] iron smithy

rauði kk.

[skilgr.] Sjá mýrarauði

refagildra kv.

[sh.] tófugildra

[skilgr.] Gildra til að veiða í refi.

[skýr.] Refagildrur eru nokkuð misjafnar að gerð en oftast grjóthlaðnir stokkar eða kassar sem hellur hafa verið lagðar yfir og grjóti jafnvel hlaðið þar ofan á. Agn var látið inn í gildruna og tófan þannig tæld inn en þá lokaðist stokkurinn með þar til gerðum lokubúnaði. Áður en eitur, dýrabogar og byssur urðu algeng fyrirbæri hafa refagildrur líklega verið eina vopn manna gegn tófunni.

[enska] fox trap

rekaviður kk.

[skilgr.] Trjádrumbar sem borist hafa til sjávar og rekið með hafstraumum, aðallega fura og lerki en einnig dálítið af ösp og greni.

[skýr.] Stærstur hluti íslensks rekaviðar er upprunninn í Rússlandi, helst Síberíu. Hann hefur borist til sjávar með stórfljótum. Rekaviður taldist meðal helstu hlunninda hér á landi, enda veigamikið búsílag. Stundum var hann eini smíðaviðurinn og innflutt timbur jafnaðist ekki á við besta rekaviðinn. Úr rekaviði voru smíðaðir bátar og ýmsir nytjahlutir. Rekaviður er misjafn að gæðum, sumt úrvals harðviður en annað maðksmogið. Rekaviður er náttúrulega varinn gegn fúa, enda mettaður af salti eftir volk í sjó. Gert var til kola úr rekavið og sjást víða merki um kolagrafir upp af rekafjörum. Reki á Íslandi er mestur á Vestfjörðum og Norðurlandi.

[enska] driftwood

renna kv.

[skilgr.]  Einhvers konar skora eða stokkur, yfirleitt fremur grunn, sem grafin hefur verið niður.  
[enska] channel

ruslalag hk.

[skilgr.] Mannvistarlag sem er samsett úr ösku, beinum og öðrum úrgangi.  Sjá einnig öskuhaugur.

[enska] sheet midden

rúst kv.

[skilgr.] Sjáanlegar leifar af föllnu mannvirki sem hefur haft grjót- eða torfhlaðna veggi.

[enska] ruin

ræsi hk.

[skilgr.]  Ræsi er niðurgrafin renna, oft hlaðin að innan og hulin með flötum hellum, sem ætlað er að veita vatni úr híbýlum manna eða skepnuhúsum. 
[enska] drain

samsetning  kv.

[skilgr.] Það hvernig eitthvað er samsett, þ.e. úr hvað grunnefnum eða -einingum.

[skýr.] Í fornleifauppgrefti er samsetningu hvers lags lýst.

[enska] composition

samþjöppun kv.

[skilgr.] Það hversu samþjappað eða þétt í sér eitthvað er.

[skýr.] Í fornleifauppgrefti er samþjöppun sérhvers lags lýst. 
[enska] compaction

sandsteinn kk.

[skilgr.] Setberg úr samanlímdum sandi, oft brúnleitt eða mórautt.

[skýr.] Sandstein var hægt að höggva og móta með verkfærum og því var hann býsna eftirsóttur og t.d. notaður í legsteina. Töluvert af sandsteini hefur fundist við uppgröft á Hólum í Hjaltadal en þar hefur hann verið notaður í eldhúsvegg.

sáfar hk.

[skilgr.] Reglulegur, oftast hringlaga niðurgröftur, far eftir sá (kerald). 
[skýr.] Sáir hafa oftast verið niðurgrafnir, jafnvel gegnum eldri mannvistarlög. Í sáum voru geymd matvæli, t.d. skyr og súrmatur. 
[enska] barrel pit

sel hk.

[skilgr.] Bústaður í úthögum eða inn til fjalla þar sem búsmali, aðallega málnytupeningur, var hafður á sumrum.

[skýr.] Tilgangur með selstöðu var margþættur: Að hlífa heimahögum við ágangi, nýta útbeit og slægjur og jafnvel eftirsókn í kjarnmeiri gróður. Sumstaðar hafa sel verið notuð sem beitarhús á vetrum.

[enska] shieling

sigti hk.

[skilgr.] Sigti er áhald með misþéttriðnu vírneti í botninn, notað til að skilja fíngert efni frá grófu eða til að finna gripi eða fundi í jarðvegi.

[enska] sieve

silfur hk.

[skilgr.] Mjúkur, gráhvítur góðmálmur, frumefni (Ag).

[skýr.] Silfur var eftirsótt og dýrmætt hráefni á víkingaöld og síðar, notað í skartgripi og skreyti og sem gjaldmiðill. Yfirleitt var harðari málmum blandað saman við silfur áður en smíðað var úr því eða því hellt í mót, en bræðslumark silfurs er rúmar 960°C. Sjá einnig gangsilfur, brotasilfur.

            [enska] silver

sjóbúð kv.

[skilgr.] Búð eða hús þar sem vergögn eru geymd, yfirleitt þar sem er heimræði. [enska] store for fishing equipment

skel kv.

[skilgr.] Hart og kúpt ytra byrði á skelfiskum, gert úr kalki.

[skýr.] Skeljar voru til ýmissa hluta nytsamlegar. Hægt var að nota þær í stað spóna, börn léku sér með skeljar og dæmi var um að reiðtygi væru skreytt með skeljum. [enska] shell

skemma kv.

[skilgr.] Geymsluhús, meðal algengustu bæjarhúsa.

[skýr.] Í skemmum voru t.d. geymd reipi, reiðingar og amboð.

[enska] storage house

skífer

            sjá flöguberg

skotbyrgi hk.

[skilgr.] Byrgi sem legið var í fyrir ref og e.t.v. öðrum vargi.

[skýr.] Skotbyrgi hafa oft verið hlaðin í námunda við greni. Þau eru yfirleitt rétt mátuleg fyrir einn mann að liggja í.

[enska] hunting shelter

skófla kv.

[sh.] reka

[skilgr.] Skófla er handverkfæri með frekar löngu skafti og flötum eða hvelfdum járnspaða á öðrum enda, notuð til moksturs eða til að stinga upp jarðveg. 
[enska] shovel, spade

skurður kk.

[skilgr.]   Skurður er orð yfir uppgraftarsvæði, helst lítið svæði þar sem lengdin er meiri en breiddin

[skýr.]  Í fornleifafræði er þó tilhneiging til að nota orðið um uppgraftarsvæði, burtséð frá lögun þess eða stærð.  Sjá einnig prufuskurður.

[enska] trench

smalabyrgi hk.

sjá smalakofi

smalakofi kk.

[sh.] smalabyrgi

[skilgr.] Lítill kofi, hlaðinn úr torfi eða grjóti af smala.

[skýr.] Smalar hlóðu oft slíka kofa til dægrastyttingar eða skýlis í hjásetu.

[enska] shepard shelter

smiðja kv.

[skilgr.] Hús þar sem járnsmíðar fóru fram.

[skýr.] Yfirleitt voru til smiðjur á hverjum bæ til að dengja ljái og smíða skeifur og fleira. Stundum er með smiðju átt við rauðasmiðju.

[enska] smithy

smíðagjall hk.

[skilgr.] Úrgangur sem til fellur þegar smíðað er úr járni. Í því eru ýmis efni sem hafa lægra bræðslumark en járn.

[skýr.] Smíðagjall er léttara og frauðkenndara en blástursgjall og finnst yfirleitt í minna magni.

[enska] smithing slag

snidda kv.

[skilgr.Snidda er ákveðin tegund af torfhnaus sem stunginn var til að hlaða úr. 

[skýr.Snidda er fremur þunnur, ílangur og oft tígullaga torfhnaus.  Hún mun mest hafa verið notuð í óvandaðri veggi, þök og túngarða.

[enska] diamond shaped turf

snið hk. 
[sh.] prófíll

[skilgr.] Snið er lóðrétt hlið á skurði eða bálki í fornleifauppgrefti.  Snið getur líka verið náttúrulegt, t.d. rofabakki. 
[skýr.] Í sniði sést afstaða laga sem grafið hefur verið í gegnum. Snið eru því mikilvæg, t.d. þegar túlka á aldur mannvistarlaga með aðferðum gjóskulagafræði. Valin snið eru oft teiknuð og ljósmynduð. 
[enska] section, profile

sniðteikning kv.

[skilgr.] Nákvæmur uppdráttur í kvarða af afstöðu laga í sniði. 
[enska] section drawing

sofnhús hk.

[skilgr.] Hús þar sem korn var þurrkað með sérstökum ofni, sofni.

[skýr.] Sofnhús frá miðöldum fannst við fornleifauppgröft á Gröf í Öræfum skömmu fyrir miðja 20. öld.

[enska] kiln house

steinleir kk.

[skilgr.] Tegund af keramiki. Þegar steinleir er búinn til er leir brenndur við háan hita, yfirleitt hærri en 1200°C. Við þetta glerjast leirinn.

[enska] stoneware

steintegund kv.

[skilgr.] Kristallað fast frumefni eða efnasamband sem finnst sjálfstætt í náttúrunni, flokkað eftir efnasamsetningu og kristallagerð. 

[enska] mineral

stekkur kk.

[skilgr.]Lítil rétt, oftast tvíhólfa, sem notuð var til að skilja sundur ær og lömb að næturlagi um stekkjartímann svo hægt væri að mjalta ærnar.

[enska] weaning fold

stoðarhola kv.

[skilgr.] Hola sem grafin hefur verið fyrir timburstoð í húsi. 
[skýr.] Algengt er að stoðarholur séu grafnar upp í fornleifauppgröftum.  Stöku sinnum sjást í þeim leifar timburstoða.  Stundum eru stoðarsteinar ofan í stoðarholum. 
[enska] posthole

strengur kk.

[skilgr.]  Strengur er aflöng torfa sem þynnist út í aðra langhliðina, skorin til að hlaða úr.

[skýr.]  Húsveggir gátu verið hlaðnir úr streng eingöngu eða í bland við annars konar torf, t.d. klömbruhnausa, eða grjót. 
[enska] turf strip

stríðsminjar

sjá herminjar

stöðull kk.

[skilgr.] Staður, oft í túnjaðri, þar sem kvíær og kýr voru mjólkaðar útivið.

[skýr.] Stundum hafa verið kvíar á stöðlum en oftar þó engin mannvirki.

[enska] milking place

sumarfjós hk.

[skilgr.] Hús sem kýr voru hýstar í um nætur að sumarlagi í þeim tilgangi að safna mykju til áburðar.

[skýr.] Sumarfjós voru ekki endilega sérstakar byggingar heldur voru t.d. fjárhús eða önnur útihús notuð sem slík, sem annars stóðu ónotuð á sumrin.

[enska] summer byre  

surtarbrandur kk.

[sh.] brúnkol, mókol

[skilgr.] Jarðlag sem myndast þar sem forn mólög lenda undir fargi yngri jarðlaga, t.d. setlaga eða hrauns. Þrýstingur og hiti valda því að mórinn kolast.

[skýr.] Surtarbrandur finnst helst í gömlum jarðlögum, a.m.k. 3 milljón ára. Hann er nokkuð algengur á Vest- og Austfjörðum. Surtarbrandur var sumstaðar nýttur sem eldsneyti. Hann þótti gefa góðan hita en óþægileg lykt var af reyknum. Surtarbrandur var unninn á nokkrum stöðum á Íslandi á árum fyrri heimstyrjaldarinnar, til dæmis í Bolungarvík, Botni í Súgandafirði, Tungubökkum á Tjörnesi og Jökulbotnum í Reyðarfirði. Þjóðtrú var tengd surtarbrandi, t.d. þótti hann duga vel gegn kveisu og verkjum.

[enska] lignite

svarðargröf kv.

            sjá mógröf

svartaraf hk.

sjá tálgukol

sverð hk.

[skilgr.]  Högg- og lagvopn, oftast tvíeggjað. 
[skýr.]  Sverð voru býsna algeng á víkingaöld en þó sjaldgæfari en t.d. spjót og axir.  Víkingaaldarsverð eru oftast nálægt einum metra að lengd, oft með ríkulega skreyttum hjöltum.

[enska] sword

svæðisskráning kv. 
[skilgr.] Fyrsta stig fornleifaskráningar, undirbúningur aðalskráningar. 
[skýr.] Við svæðisskráningu er rituðum heimildum um fornleifar safnað.

            [enska] regional survey

svörður kk.

sjá mór

sýni hk.

[skilgr.]  Sýnishorn, hluti tekinn af stærri heild til að rannsaka frekar eðli og innihald. 

[skýr.]  Sýnataka er mjög algeng í fornleifauppgröftum og þjónar margvíslegum tilgangi. 
[enska] sample

sæluhús kv.

[skilgr.] Hús gert sem afdrep fyrir ferðamenn, gangnamenn og aðra þá sem átt hafa erindi um óbyggðir.

[skýr.] Sæluhús voru iðulega hlaðin úr torfi og/eða grjóti og oft borghlaðin.

[enska] rest huttað hk.

[skilgr.] Saur úr fé eða hrossum.

[skýr.] Tað, einkum sauðatað, var mikið notað til eldsneytis á árum áður en einnig til áburðar. Sauðatað sem fé hafði legið á og stungið var út úr húsum í flögum var nefnt skán.

[enska] dung

taðaska kv.

[skilgr.] Aska sem verður til þegar taði er brennt.

[skýr.] Taðaska er dálítið grófgerð, líkt og sendin. Hún þótti ágætur undirburður á gólf, einnig var hún borin í ull á lömbum til að koma í veg fyrir lús.

[enska] dung ash

tálgukol hk.

[sh.] svartaraf

[skilgr.] Mjög hörð tegund af kolum sem hægt er að gljáslípa og nota í skartgripi. [skýr.] Á Íslandi hafa fundist perlur úr tálgukoli, flestar frá síðmiðöldum. Tálgukol finnast ekki á Íslandi en eru býsna algeng á Bretlandseyjum, Spáni og í Frakklandi. Þau myndast þegar viður lendir í kyrrstæðu vatni og steingerist.

[enska] jet

tálgusteinn kk.

[skilgr.] Samheiti yfir ýmsa mjúka nytjasteina sem hægt er að tálga til og móta. [skýr.] Á Íslandi eru tálgusteinar einkum úr móbergi. Úr þeim hafa t.d. verið gerðir snældusnúðar.

[enska] carvable stone

teiknirammi kk.

[skilgr.]  Áhald, rammi sem oftast er 1 x 1 m að stærð og í hann strengt hnitakerfi með snúrum

[skýr.] Teiknirammi er mesta þarfaþing í fornleifauppgrefti þegar teikna þarf t.d. grjótdreifar.  Ramminn er þá lagður yfir viðfangsefnið í stefnu við hnitakerfi uppgraftarins og mælt útfrá hnitakerfi rammans.

[enska] planning frame

tin hk.

[skilgr.] Ljósgrár málmur, frumefni (Sn).

[skýr.] Tini var gjarnan blandað saman við aðra málma, t.d. saman við kopar til að fá brons.

[enska] tin

torf hk.

1.  [skilgr.] Grassvörður, yfirborðslag jarðvegs ýmist í mýrum eða á valllendi, oft seigt af rótarflækjum.

[skýr.] Torf var eitt mikilvægasta byggingarefni á Íslandi allt fram til loka 19. aldar og sumstaðar lengur, auk grjóts og timburs. Yfirleitt var einhver torfrista á hverjum bæ en val á torfristustað fór nokkuð eftir því í hvað átti að nota torfið. Til að mynda voru hnausar sem átti að nota til hleðslu yfirleitt stungnir í mýrum en þaktorf, sem þurfti að vera fremur þunnt og þurrt, rist í valllendi. Mismunandi heiti eru notuð um ólíkar einingar torfs, t.d. strengur, klömbruhnaus, snidda og kvíahnaus.

[enska] turf

2.   [skilgr.]  Gamalt heiti yfir mó.

[enska] peat

torfhrun hk.

sjá hrun 
[enska] turf collapse

torfristustaður kk.

[sh.] rista

[skýr.] Torfristustaður er náma, staður þar sem torf hefur verið rist.

[enska] turf cutting place

tóft kv.

1.  [skilgr.] Tóft er (oft vallgrónar) leifar af hrundu mannvirki sem hefur verið hlaðið úr torfi og/eða grjóti.

[enska] ruin

2.  [sh.] heytóft [skilgr.] Tóft eða heytóft er þaklaust hólf með hlöðnum veggjum sem haft var til að geyma hey. [skýr.] Heytóftir voru oft sambyggðar útihúsum, einkum norðanlands og vestan.

tófugildra kv.

sjá refagildra

traðir kv.ft.

[skilgr.] Gata í túni, oft heimreið, sem hefur verið hlaðið meðfram til beggja hliða til að verja túnið fyrir ágangi manna og skepna.

[skýr.]  Hugtakið er sjaldnar notað í eintölu, tröð. 

[enska] fenced road

tröð

            sjá traðir

tungunæla kv. 
[skilgr.] Tungunæla er sérstök gerð nælu frá víkingaöld. Tungunælur eru stýfðar í annan endann en bogadregnar í hinn. Undirlagið er slétt, niellerað, en framhliðin ríkulega skreytt. 
[skýr.] Tungunælur eru sjaldgæfar og aðeins tvær slíkar hafa fundist á Íslandi, báðar í kumlum. 
[enska] tongue shaped brooch

tún hk.

[skilgr.] Grasvöllur umhverfis bæ, fjárhús eða jafnvel stekk sem borið hefur verið á og sleginn.

[skýr.]  Stundum hafa tún verið afmörkuð með hlöðnum garði, túngarði.  Tún umhverfis býli nefnast heimatún.

[enska] hayfield

túngarður kk.

[skilgr.] Garðlag umhverfis tún að hluta eða öllu leyti.

[enska] homefield boundary

tvíkuml hk.

[skilgr.] Kuml þar sem tveir menn hafa verið jarðsettir í sömu gröf.

[skýr.] Tvíkuml getur annaðhvort átt við kuml þar sem bæði líkin hafa verið greftruð samtímis eða þar sem annað líkið hefur verið grafið ofan í eldra kuml. Íslensk tvíkuml eru ekki algeng en dæmi um slíkt er þó kuml sem fannst á Kaldárhöfða í Grímsnesi.  [enska] double burial


ull kv.

[skilgr.] Þétt, mjúk og oft hrokkin hár sem mynda feld eða gæru á sauðfé og geitum. [skýr.] Gróft hár er í yfirborði ullarinnar, nefnt tog en undirlagið er fínna og þéttara, heitir þel. Ull var kembd og úr henni spunninn ullarþráður sem síðan var prjónað úr eða ofið vaðmál. Spunnið var á halasnældu allt þar til rokkar urðu algengir á 18. og 19. öld. Einn aðalstarfi fólks á vetrum var tóvinna. Kindur voru rúnar eða tekið af þeim á vorin en sauðaklippur komu ekki til sögunnar fyrr en á 19. öld. Yfirleitt var besta ullin talin af útigangsfé, enda laus við skófir og moð.

[enska] wool

uppblástur kk.

[skilgr.] Jarðvegseyðing af völdum foks. 
[skýr.Jarðvegsþykknun á einum stað gefur yfirleitt til kynna að uppblástur hafi átt sér stað á öðru svæði.

[enska] erosion

útihús hk.

[skilgr.] Hvert það hús sem er aðskilið frá bæjarhúsum.

[skýr.] Útihús getur t.d. verið skemma, fjárhús eða smiðja. Orðið er yfirleitt ekki notað um mannvirki í úthögum, s.s. beitarhús.

[enska] outhouse

vað hk.

[skilgr.] Staður á vatnsfalli þar sem fært er yfir, ríðandi eða gangandi.

[enska] ford

vaðmál hk.

[skilgr.] Heimaofið ullarefni. 
[skýr.] Vaðmál var mikilvægur gjaldmiðill á Íslandi á miðöldum. Verðgildi hluta var metið í vaðmáli, kúgildum og fiskum.

[enska] homespun

varða kv.

[skilgr.] Uppmjó hleðsla úr grjóti eða torfi.

[skýr.] Vörður voru gjarnan hlaðnar sem leiðarvísar, eyktamörk eða landamerki. Oft hafa þær þó engan sýnilegan tilgang og hafa vafalaust verið hlaðnar til gamans, t.d. smalavörður, hlaðnar af smölum í hjásetum.

[enska] cairn

varnargarður kk.

[skilgr.] Garðlag, hlaðið til að verjast náttúruöflum, t.d. skriðuföllum og vatnagangi. [enska] barrier

vatnsdýr hk.

[skilgr.]  Sérstök kanna í líki dýrs, notuð undir þvottavatn prests í kaþólskum sið 
[skýr.]  Oft voru slíkar könnur steyptar úr koparblendingi og gjarnan í líki ljóns.  Vatnsdýra er víða getið í máldögum kirkna frá miðöldum en vitað er um tvö slík sem varðveist hafa úr íslenskum kirkjum; er annað úr Vatnsfirði en hitt frá Holtastöðum í Langadal.

[enska] aquamanile

vattarsaumur kk. 
[skilgr.] Ákveðin tegund af saumi. Verkinu miðar áfram í lykkjum eftir sömu meginreglu og við hekl eða prjón. Með þeim aðferðum myndar þráðurinn lykkjur sem hægt er að draga úr, svo að allt verkið rakni upp. Í vattarsaumi gengur þráðurinn gegnum þær lykkjur sem fyrir eru og er erfitt að draga hann úr aftur. Notast er við þræði af takmarkaðri lengd í hvert skipti og hnýtt er við nýjum þræði þegar þarf. 
[skýr.] Vattarsaumur er líklega ævaforn aðferð. Til er sænskur vöttur, unnin með vattarsaumi, sem talinn er frá því um Krists burð. Auk þess þekktist aðferðin í Perú, Egyptalandi og Persíu. Vöttur sem fannst á Arnheiðarstöðum í Fljótsdal er helsti vitnisburðurinn um þessa aðferð á Íslandi en einnig má nefna að við gerð ákveðinnar tegundar af mjólkursíum mun sama saumspor hafa tíðkast. 
[enska] needle-knitting, knotless netting

vefjarskeið

[skilgr.] Sverðlaga áhald sem notað var til að slá vef.

            [skýr.]  Oftastvoru vefjarskeiðar úr hvalbeini eða tré.

            [enska] weaving sword

 verbúð kv.

[skilgr.] Búð sem vermenn lágu við í tímabundið, þar sem útræði var stundað.

[enska] fishing booth

viðaraska kv.

[skilgr.] Ljósgrá, mjúk og duftfín aska sem verður til þegar viður brennur.

[enska] wood ash

viðarkol hk.

[skilgr.] Kol sem hafa verið búin til úr viði.

[skýr.] Talað var um „að gera til kola“. Viður, oftast birki eða rekaviður en stundum fjalldrapi, var höggvinn og kurlaður, síðan settur í þar til gerða kolagröf. Þá var eldur borinn að en gröfin síðan byrgð með torfi. Þannig hélst glóð í kurlinu og var látin krauma í þrjá til fjóra daga. Afurðin var viðarkol. Viðarkol voru nauðsynlegt eldsneyti í smiðjum þar sem ljáir voru dengdir og skeifur smíðaðar.

[enska] charcoal

viðnámsmæling kv.

[skilgr.] Aðferð sem notuð er til að staðsetja og kanna mannvirki undir sverði.  Þetta er gert með þar til gerðum viðnámsmæli sem mælir viðnám.

[skýr.]  Í mjög einfölduðu máli má segja að grjót og þjappaður jarðvegur eins og í torfveggjum hafi annað viðnám en laus og sendinn jarðvegur.  Túlkun á útkomu viðnámsmælinga getur verið býsna flókin.

[enska] resistivity survey

vikur kk.

[skilgr.] Molar og brot úr frauðkenndri harðstorknaðri kvikufroðu sem þyrlast hátt í loft upp í gosum og berast oft langar leiðir frá gosstöðvunum.

[skýr.] Vikur er léttur og flýtur á vatni. Hann er frekar grófur en molnar auðveldlega og var notaður sem slípiefni, t.d. til að fægja potta og skinn.

[enska] pumice 

vörslugarður kk.

[skilgr.] Garðlag, hlaðið í úthaga til að verja svæði fyrir búfénaði, yfirleitt slægjuland. [enska] pasture boundary

þangaska kv.

[skilgr.] Aska sem verður til þegar þangi er brennt.

[skýr.] Salt var unnið úr þangösku.

þríblaðanæla kv.

[skilgr.] Þríblaða næla er ákveðin tegund bronsnælu frá víkingaöld. Þríblaðanælur minna nokkuð á þriggja blaða smára, þrjú blöð eða tungur sem saman taka í miðju. 
[skýr.] Níu slíkar hafa fundist á Íslandi, flestar í kumlum. Þvermál nælanna er yfirleitt um 3-5 sm og laufin eða blöðin eru oftast skreytt. 
[enska] trefoil brooch

þunnsneið kv.

[skilgr.] Þunnsneið er örþunn sneið af jarðvegi, ætluð til greiningar í smásjá.

[skýr.] Þunnsneiðar eru notaðar við rannsóknir í örformgerðarfræði.

            [enska] thin section

þvottalaug kv.

[skilgr.] Laug sem notuð hefur verið til þvotta að jafnaði.

[enska] warm washing pool

þvottastaður kk.

[skilgr.] Staður þar sem þvottur, ull eða annað (t.d. brennisteinn) var þveginn að jafnaði.

[skýr.] Þvottastaður getur verið lækjarbakki, laug eða brunnhús.

[enska] washing place

örformgerðarfræði kv.

[skilgr.]  Fræðigrein þar sem markmiðið er að rannsaka örformgerð jarðvegs, þ.e. skoða nákvæma samsetningu hans í smásjá.

[skýr.]  Með örformgerðarfræði er mögulegt að greina samsetningu náttúrlegra efna í jarðvegi en einnig plöntuleifar, beinabrot, brot úr gripum og öskuleifar svo eitthvað sé nefnt.  Hægt er að greina tegundir ösku, t.d. hvort brennt hafi verið mó, við eða þangi.  Áður en sýni eru skoðuð undir smásjá er þeim skipt í svonefndar þunnsneiðar
[enska] micromorphology

örnefni hk.

[skilgr.] Sérnafn á tilteknum stað.

[skýr.] Örnefni eru mikilvægar heimildir um fornleifar og menningarsögu.

[enska] place name

öskuhaugur kk.

[sh.] öskuhóll, ruslahaugur

[skilgr.] Haugur sem myndast þar sem ösku, beinum og öðrum úrgangi er kastað að jafnaði.

[skýr.] Öskuhaugar eru meðal mikilvægustu minjastaða. Þar má finna vísbendingar um lífsviðurværi fólks og oft gripi. Sjá einnig ruslalag.

[enska] midden, rubbish dump